139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[19:01]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef hv. þingmaður ímyndar sér að samasemmerki sé á milli þess að vilja ekki fara þá leið að styðjast við stjórnlagaþing til að endurskoða stjórnarskrána og að vilja ekki endurskoða stjórnarskrána, eins og hv. þingmaður hélt fram í ræðu sinni, þá geta menn auðvitað komist að þessari niðurstöðu. En það er nákvæmlega þetta sem ég var að vísa til. Hv. þingmaður getur búið sér til svona gerviandstæðinga og ráðist að þeim af miklum þrótti og eins og riddari á hvítum hesti en það breytir ekki því að það er ekki það sem málið snýst um.

Við erum hér að ræða um formið, hvernig eigi að standa að því að endurskoða stjórnarskrána. Það hefur komið fram í yfirlýsingum, m.a. frá formanni Sjálfstæðisflokksins, að Sjálfstæðisflokkurinn er að sönnu reiðubúinn til að fara í endurskoðun stjórnarskrárinnar. Við teljum að hægt sé að gera það bæði með skilvirkari, lýðræðislegri og skjótvirkari hætti en hér er verið að leggja til. Við höfum margoft tekið þátt í því að endurskoða stjórnarskrána, þannig að hv. þingmaður getur ekki fundið orðum sínum stað. Ég veit að hv. þingmaður vill ræða þessi mál efnislega. Þess vegna vil ég hvetja hann til þess að kalla aftur og draga til baka ummæli sín um það að Sjálfstæðisflokkurinn (Forseti hringir.) vilji ekki endurskoða stjórnarskrána.