139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[19:06]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er bara algjörlega ósammála því að við höfum ekki komið með efnismiklar breytingar á stjórnarskránni frá upphafi lýðveldisins. Ég er bara algjörlega ósammála því. Ég mun fara yfir það í ræðu á eftir og ég mun líka fara yfir það í ræðu á eftir af hverju málin stoppuðu hér árið 2005.

Það er greinilega erfitt fyrir menn að heyra að við sjálfstæðismenn viljum breyta stjórnarskránni og það er ekki einu sinni látið reyna á það núna á þessum upplausnartímum af ríkisstjórn sem Framsóknarflokkurinn ber hvað mesta ábyrgð á. (Gripið fram í.) Ég vil því, um leið og ég ítreka spurningu mína varðandi Sigurð Líndal, spyrja hv. þingmann um skoðun hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur, fulltrúa Framsóknarflokksins í allsherjarnefnd. Hvaða skoðun hefur hv. þingmaður á eftirfarandi orðum hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur í nefndaráliti frá Framsóknarflokknum: „Nú er staðreyndin sú, frú forseti, að Alþingi handvelur einstaklinga til setu í stjórnlagaráði eftir ógildar kosningar. Lengra verður vart (Forseti hringir.) komist í sniðgöngu“? Þetta segir þingmaður Framsóknarflokksins. (Forseti hringir.) Er hv. þingmaður sammála þessum orðum?