139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[20:19]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég mun taka til máls á eftir og reifa sjónarmið mín til þessa máls í víðara samhengi, en ég verð að nota þetta tækifæri til að eiga hér orðastað við hv. þingmann sem segir í sínu máli að Hæstiréttur hafi ekki gefið neina leiðbeiningu um hvað ætti að gera.

Nú er það svo að kosningin sem slík var kærð til Hæstaréttar og hann er óumdeilanlega bær til þess að fjalla um þá kæru. Því er ekki haldið fram í umræðunni að hann geti ekki fjallað um kæruna sem slíka. Í kærunni er sú spurning borin undir Hæstarétt hvort svo kunni að vera að kosningin sé ógild. Hæstiréttur kemst að mjög skýrri niðurstöðu um það atriði sem kært hefur verið til hans í málinu, Hæstiréttur segir: Kosningin er ógild.

Mér er algjörlega fyrirmunað að skilja hvers vegna menn sem styðja þessa lausn á málinu leggja svona mikla áherslu á það í málflutningi sínum að skort hafi á frekari leiðbeiningar frá Hæstarétti um einhver mál sem voru ekkert til umfjöllunar í kærumeðferðinni. (Gripið fram í.) Það er ekki þannig að Hæstiréttur hafi verið stjórnvöldum til ráðgjafar í þessu máli. Hæstiréttur hefur ekki einhvers konar ráðgjafarhlutverk fyrir ríkisstjórnina eða þingið eða einstaka þátttakendur í þessari kosningu. Hæstiréttur hefur mjög skýrt afmarkað hlutverk, hann komst að skýrri niðurstöðu alveg eins og ef um einhvern annan löggerning hefði verið að ræða sem dæmdur hefði verið ógildur. Ég vil biðja hv. þingmann að velta því fyrir sér að ef t.d. um einhvern gjafagerning hefði verið að ræða, bara svona í lagalegu samhengi, sem Hæstiréttur hefði komist að niðurstöðu um að væri ógildur, þá væri bara staðan eins og ekkert hefði gerst, gerningurinn fellur niður (Forseti hringir.) og menn byrja með hreint borð.