139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[20:22]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarna Benediktssyni fyrir andsvarið. Ég hef aldrei nefnt og mun ekki nefna það í mínu máli hér að Hæstiréttur eigi að vera stjórnvöldum til ráðgjafar í þessu máli eða öðrum. Ég hef sagt eins og hv. þingmaður nefndi hér í andsvarinu að niðurstaða Hæstaréttar var skýr, kosningarnar voru ógildar.

En hvað svo, hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, hvað svo? (Gripið fram í.) Er það ekki rétt hjá mér að Alþingi fer með löggjafarvald á Íslandi, er ekki svo? Hefur einhver haldið því fram að sú ákvörðun sem hér er tekin sé ólögleg? Ég hef engan heyrt nefna það, vegna þess að hún er það ekki. Við erum einfaldlega sett í þá stöðu að taka ákvörðun um framhaldið í þessu máli og þetta var niðurstaðan, því að við teljum að þetta sé eina leiðin til að ná fram lífsnauðsynlegum breytingum á stjórnarskránni og um leið úthýsa því frá Alþingi.

Við erum ekki sammála um þessa hluti, ég og þingmenn Sjálfstæðisflokksins, og ég er ekkert að vonast til að þeir komist á mína skoðun en það fer óneitanlega í taugarnar á mér, svo að ég segi það, þegar menn koma hér og hafa hátt um að verið sé að vanvirða niðurstöðu Hæstaréttar.

Hv. þm. Bjarni Benediktsson, sem var einu sinni lögmaður rétt eins og ég, veit að í dómstóli þarf að vera oddatala til að þetta sé dómur, rétt eins og hv. þm. Birgir Ármannsson veit líka, og það þarf að fara eftir réttarfarslögum. Hvorugt þessara atriða átti við, og af því að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson sagði að ekki hefði (Forseti hringir.) verið hægt að vísa þessu til dómstóla, þá eru bara deildar meiningar um það.