139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[20:24]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er algjörlega óskiljanlegur málflutningur þegar hv. þingmaður nefnir það sem einhverja ástæðu fyrir þeirri leið sem hér er farin að ekki hafi verið oddatala við ákvörðun í Hæstarétti í þessu máli. Það skiptir nákvæmlega engu máli þegar allir dómararnir eru sammála.

Það sem hefur algjörlega skort á, ekki bara í umræðu um þetta mál og þá niðurstöðu sem varð í Hæstarétti og hvernig eigi að bregðast við henni heldur líka í allri umræðu um það stóra verkefni sem hér er undir, sem er sjálf stjórnarskráin og breytingar á henni, er að menn geri grein fyrir því hvers vegna menn treysta ekki Alþingi til að ganga í þetta verkefni. Það hefur aldrei reynt á það í þau rúm tvö ár sem liðin eru frá því kosið var, hvort tekist gæti samstaða um það á þinginu að leggja upp í þá vegferð á einhverjum sameiginlegum forsendum, heldur hefur þvert á móti öllum tímanum, kraftinum og fjármununum (Forseti hringir.) verið varið í formið. Það er dapurlegt. Og það á að halda áfram á þeirri braut.