139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[20:55]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðu hans. Ég er henni samt ósammála í flestum atriðum.

Hv. þingmaður nefndi í upphafi ræðunnar að honum virtist sem svo að það hefði verið einhver ásetningur að hunsa dóminn, að gera sem sagt allt til að þessir 25 mundu sitja áfram. Það er einfaldlega rangt. Ég útskýrði það mjög ítarlega í ræðu áðan.

Það er eitt sem vakti athygli mína og mig langar til að spyrja hv. þm. Bjarna Benediktsson nánar út í. Hann segir að það hafi falist í niðurstöðunni að byrja upp á nýtt. Það er eitthvað sem er algert nýmæli í mínum eyrum frá Sjálfstæðisflokknum vegna þess að fulltrúar í þessum samráðshóp komu með þau skilaboð að meiri hluti væri fyrir því að skipa einhvers konar nefnd, þ.e. að halda áfram með það ferli sem hefði verið, nota vinnuna sem stjórnarskrárnefndin hafði tekið að sér, og taka svo málið inn á Alþingi.

Hv. þingmaður vill byrja upp á nýtt og þá spyr ég hann: Hvað vill hann fara langt aftur á bak? Eigum við að henda vinnunni sem stjórnarskrárnefndin hefur unnið? Eigum við að taka alla vinnuna sem þjóðfundurinn vann og ýta henni út af borðinu? Eigum við að velja upp á nýtt á þjóðfund? Það sem mér finnst athyglisverðast er að ef menn vilja byrja upp á nýtt eru menn þá ekki í raun að segja að þeir vilji einhvers konar stjórnlagaþing, ekki rétt? Eru menn ekki að segja að þeir vilji útvísa málinu frá Alþingi? (Gripið fram í: Þú ert …) Er það ekki akkúrat það sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið að ræða í allan dag, að þeir vilja ekki útvísa málinu? En nú kemur formaður flokksins og ég skil hann ekki öðruvísi en hann vilji einmitt byrja upp á nýtt og gera það þá að verkum að við útvísum málinu.