139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[21:08]
Horfa

Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svar hv. þingmanns var afar athyglisvert. Það er vegna þess að við teljum að það sé óþarfi að leggja út í þann kostnað og þá fyrirhöfn sem þessu ferli fylgir. En þá hefur ekkert breyst í raun og veru eða hvað, hv. þingmaður, með niðurstöðu Hæstaréttar vegna þess að þið tölduð að þetta væri óþarfamálsmeðferð og óþarfakostnaður áður en niðurstaðan lá fyrir?

Ég vil spyrja hv. þingmann einnar spurningar, vegna þess að hann var formaður allsherjarnefndar árið 2004 þegar forseti Íslands vísaði lögum um fjölmiðla í þjóðaratkvæðagreiðslu. 26. gr. í stjórnarskránni er alveg skýr með það að slík mál eiga að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hins vegar var það ekki gert í þessu tilfelli þrátt fyrir að lagabókstafurinn sé alveg kristaltær í þeim efnum.

Má ekki með sömu rökum og verið er að halda því fram hér að við séum að sniðganga Hæstarétt og þar með anda stjórnarskrárinnar halda því fram að það hafi í sjálfu sér verið sniðganga við stjórnarskrána? Það mál fór ekki í þjóðaratkvæðagreiðslu eins og 26. gr. stjórnarskrárinnar kvað alveg kristaltært á um.