139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[21:31]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Komin er til síðari umræðu tillaga til þingsályktunar um svokallað stjórnlagaráð sem við ræddum nokkuð ítarlega fyrir ekki löngu síðan. Þá gafst okkur tækifæri til að fara nokkuð rækilega yfir efnisatriði og forsögu þessa máls.

Það sem hefur vakið athygli mína í umræðunni þegar ég hef fylgst með henni, eins og ég hef gert eftir föngum, er hversu lítill sannfæringarkraftur mér hefur fundist búa á bak við þessa tillögu. Auðvitað hafa menn oft og tíðum þegar málum er fylgt úr hlaði ýmsar skoðanir á þeim en þeir sem bera ábyrgð á máli fylgja því jafnframt eftir vegna þess að þeir hafa þá trú að það sé það skynsamlegasta sem hægt sé að gera í stöðunni, ýmsir aðrir kostir geti svo sem komið til greina en niðurstaða þeirra sé skynsamlegust og því eðlilegt þess vegna að þeir fylgi málinu eftir af allmiklum krafti. Við sem höfum vaktað þessa umræðu, tekið þátt í henni og fylgst með hvernig henni hefur undið fram höfum gert okkur grein fyrir því að á bak við málið er lítil sannfæring. Þetta er fyrst og fremst niðurstaða eftir óskaplega erfiða stöðu sem ríkisstjórnin stóð frammi fyrir þegar Hæstiréttur úrskurðaði um stjórnlagaþingið eins og allir vita.

Hæstiréttur ógilti einfaldlega kosningar til stjórnlagaþings. Flóknara er það mál ekki. Hæstiréttur gerði það sem ekki hefur þekkst í lýðræðisríki eftir því sem fróðir menn segja, hann ógilti almennar kosningar hér á landi. Þar með var málið að sjálfsögðu komið á upphafsreit. Í fyrri umræðunni og raunar strax þegar niðurstaða Hæstaréttar lá fyrir gætti ákveðinnar tilhneigingar í máli hæstv. innanríkisráðherra til að draga úr niðurstöðu Hæstaréttar. Hann sagði eitthvað á þá leið að þetta væri kannski ekki svo alvarlegt, það hefði verið spurning hversu há skilrúmin hefðu verið á milli kjörklefanna, hvort kassarnir hefðu verið nægilega læstir, þetta væru slík tæknileg smámál að menn ættu ekki að taka úrskurðinn mjög alvarlega. Vitaskuld breyttist tónninn þegar menn fóru að hugsa sitt ráð. Auðvitað var öllum ljóst, hvort sem þeir undu þessari niðurstöðu í huganum eður ei, að þetta var niðurstaða Hæstaréttar og um hana þýddi ekkert að ræða. Þetta var niðurstaða Hæstaréttar og henni var ekki hægt að áfrýja.

Eins og hæstv. innanríkisráðherra sagði þegar leið á umræðuna þá verða menn að viðurkenna og virða niðurstöðu Hæstaréttar þó að þeir gagnrýni hana efnislega. Ég er ekki einn þeirra sem segja að Hæstiréttur sé hafinn yfir gagnrýni. Það er ekki óeðlilegt að menn kunni að hafa mismunandi skoðanir á efnislegri niðurstöðu Hæstaréttar, jafnt hvort sem hún er kölluð álit eða dómur — það breytir ekki neinu stóru í þessu viðfangi eins og Eiríkur Tómasson lagaprófessor benti á, það breytir engu um þetta mál.

Niðurstaða Hæstaréttar varð sú að kosningarnar voru ólögmætar. Hver var þá staðan? Staðan var sú að ekki yrði neitt stjórnlagaþing. Stjórnlagaþingið sem menn töldu í einhverjar vikur að hefði verið komið á fót yrði einfaldlega ekki til. Þeir 25 einstaklingar sem fengu kjörbréf fengu tilkynningu um að kjörbréfið væri afturkallað og voru komnir í nákvæmlega sömu stöðu og þeir rúmlega 300 þúsund Íslendingar sem hér búa, þeir höfðu í raun ekki aðra stöðu gagnvart stjórnarskránni en við hin í landinu. Þá var komið upp nýtt úrlausnarefni sem þurfti að bregðast við. Ég geri ekki lítið úr því að verkefnið var vandasamt. Ríkisstjórnin ákvað að kalla saman hóp fólks úr öllum stjórnmálaflokkum en sá hópur komst ekki að sameiginlegri niðurstöðu. Niðurstaðan er sú sem hér er fengin. Hún er samnefnari, klárlega ekki rökréttasta niðurstaðan heldur einhvers konar samnefnari sem menn gátu komið sér saman um.

Það segir meira en mörg orð um vandræðaganginn í þessu máli að ekki er um að ræða stjórnartillögu heldur þingmannatillögu sem endurspeglar það sem allir vita, að um þetta mál hefur verið og er ágreiningur bæði milli flokka og innan flokka. Það eitt út af fyrir sig er að mínu mati ákaflega alvarlegt vegna þess að nú leggjum við af stað í nýja vegferð við endurskoðun stjórnarskrárinnar í fullkomnu ósætti um form og inntak. Það er óskaplega alvarlegt og það held ég að við verðum að hafa í huga.

Það sem hefur í raun og veru verið gert í þessu máli er að skipt hefur verið um nafn og númer á gamla stjórnlagaþinginu. Inntakið „stjórnlagaráð“ er auðvitað annað en „stjórnlagaþing“ í þeim skilningi að upphaflega hugmyndin var að kosið yrði til stjórnlagaþingsins af þjóðinni, tilteknir 25 einstaklingar yrðu kosnir af þjóðinni til að vinna að endurskoðun stjórnarskrárinnar og sæktu þar með beint umboð sitt til þjóðarinnar og væru því fulltrúar hennar við það skyldubundna verkefni að endurskoða stjórnarskrána. Það sem nú er verið að reyna að koma á laggirnar er eðlisóskylt stjórnlagaþinginu að því leyti að lagt er upp með málið þannig að tilteknir 25 einstaklingar, sem kosnir voru ólöglegri kosningu á stjórnlagaþing, eigi að fá það verkefni að endurskoða stjórnarskrána.

Það sem gerir málið enn þá undarlegra er sú staðreynd að þegar farið er yfir það blasir við að hugmyndin um stjórnlagaþingið hefur verið ljósrituð, eins og rakið er mjög nákvæmlega í nefndaráliti 1. minni hluta allsherjarnefndar, fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í allsherjarnefnd. Þegar þessi mál eru skoðuð er í öllum efnisatriðum um að ræða sama fyrirbrigði að þessu leyti: Þetta er sama verkefni, umbúnaðurinn á að vera hinn sami, laun og kjör eiga að vera hin sömu o.s.frv. Eðlismunurinn er hins vegar sá að hugmyndin á bak við stjórnlagaþingið var að þeir fulltrúar sem sætu á því þingi og hefðu það verkefni að endurskoða stjórnarskrána hefðu hver fyrir sig sótt umboð sitt að loknum tilteknum kosningum beint til þjóðarinnar. Hér er engu slíku að heilsa, hér er verið að skipa nefnd og setja hana í málið. Þá hefði að mínu mati verið miklu eðlilegra að hæstv. forsætisráðherra hefði bara skipaði nefndina í stað þess að fara þá sérkennilegu krókaleið, sem allir sjá að er sýndarleikur, að kalla eftir umboði Alþingis til að skipa nefnd sem er fyrir fram gefið hvernig eigi að vera skipuð með þeim mikilvæga fyrirvara þó að þeir sem ekki kjósa að taka sæti í nefndinni geti sagt sig frá því og er þá farið í röðina og valdir þeir einstaklingar sem næstir komu í niðurstöðum kosninga sem dæmdar voru ólöglegar. Þetta er svo fráleitt að maður ætti erfitt með að halda niðri í sér hlátrinum ef málið væri ekki svona alvarlegt. Það er nefnilega alvarlegt af þeirri ástæðu að við erum að tala um grundvallarlög samfélagsins, stjórnarskrá íslenska lýðveldisins, sem er ekkert gamanmál og ekki mál sem við getum fleiprað með eða farið í tilraunastarfsemi með.

Það sem verður auðvitað vandi stjórnlagaráðs þegar búið er að fara yfir þetta er aðdragandinn. Þegar við förum yfir forsöguna sem hófst með því að ákveðið var að efna til kosninga sem ég hef þegar gert að umræðuefni, kosninga sem dæmdar voru ólöglegar, og síðan farið með málið eftir mikið japl, jaml og fuður og mikinn vandræðagang í þingið og skipað ráð með þessum sérkennilega hætti þá verður niðurstaðan auðvitað sú, hvort sem mönnum líkar það betur eða verr og burt séð frá þeim 25 einstaklingum sem að lokum munu taka sæti í þessu stjórnlagaráði, að þetta nýja stjórnlagaráð, þessi nefnd sem Alþingi er að skipa með þessum ótrúlega hætti, mun skorta allt lögmæti, ekki lögmæti í þeim skilningi að ráðið verði ólöglegt, Alþingi skipar það en það skortir lögmæti í þeim skilningi að umboðið sem stjórnlagaþinginu var ætlað að hafa er ekki fyrir hendi. Stjórnlagaþinginu var nefnilega ætlað að fá lögmæti sitt í skilningi þess hugtaks sem menn þekkja úr félagsvísindum með því að sækja sér umboð, vald og stuðning beint til þegna landsins, til kjósenda, almennings í landinu, sem kysu fólk þangað inn. Sú leið er ekki farin vegna þess að kosið er að taka skemmri skírn og fá þá niðurstöðu sem menn ætluðu sér að ná í öndverðu.

Vitaskuld hefði verið miklu rökréttara ef menn hefðu viljað fara leið stjórnlagaþingsins að hefja einfaldlega leikinn upp á nýtt, leggja fram nýtt frumvarp um stjórnlagaþing og taka tillit til þeirra sjónarmiða sem höfðu komið fram, t.d. um það sem ég hef kallað hina eitruðu blöndu persónubundins kjörs og hugmyndarinnar um að landið verði eitt kjördæmi, fara yfir þau álitamál, koma að því búnu með frumvarpið um stjórnlagaþing til þingsins og láta það taka afstöðu til þess. Það tæki tíma, það er rétt, en eru menn óttaslegnir um að tíminn sé að renna út? Ímynda menn sér að kjörtímabilinu sé að ljúka? Erum við ekki stödd á miðju kjörtímabili? Eru menn hræddir um að ríkisstjórnin eigi sér ekki marga lífdaga? Þarf að hraða þessu máli þannig að hægt sé að bera það upp á tveimur þingum eins og gert er ráð fyrir samkvæmt stjórnarskránni? Vakir eitthvað slíkt fyrir fólki með því að taka þessa skemmri skírn í málinu? Ég bara spyr, sá sem ekki veit. Auðvitað hefði það verið rökréttari aðferð frá sjónarhóli þeirra sem vildu fara leið stjórnlagaþingsins til að tryggja lögmæti, sem ég hef kallað svo, sem ætlað var að ná með beinni kosningu frambjóðenda inn á stjórnlagaþingið. Því miður varð það ekki niðurstaðan.

Niðurstaðan er sú undarlega redding, sem ég kalla svo, sem þetta mál er orðið. Það hefur m.a. verið kallað af virtum og virðulegum lagaprófessor lagasniðganga eða stjórnarskrársniðganga. Þar talar enginn aukvisi. Þar talar ekki algerlega reynslulaus gutti. Hér er ég að vísa til orða lagaprófessorsins, prófessors emeritus Sigurðar Líndals sem hefur nánast gert það að lífsverkefni sínu að fara í gegnum stjórnarskrárþætti af þessu tagi og veit sennilega sínu viti þegar hann veltir málinu fyrir sér. Málið snýst um að í kringum endurskoðunina verði menn a.m.k. að hafa manndóm í sér til að búa til fyrirkomulag og form sem ekki þarf að rífast um.

Eftir því sem mig rekur minni til lagði ég talsverða áherslu á það í ræðu minni við fyrri umræðu þessa máls inn á hvaða háskabrautir við færum ef við tækjum um það ákvörðun að hefja þessa stjórnarskrárvinnu eða ferli stjórnarskrárvinnunnar í svona miklum ágreiningi um formið sjálft. Við vitum að stundum hafa verið átök um einstök efnisatriði stjórnarskrárinnar. Við vitum að alltaf hefur verið lögð á það gríðarleg áhersla að um stjórnarskrármál takist sem allra best sátt. Af hverju skyldi það vera? Það er vegna þess að ekki er um að ræða nein venjuleg lög. Við erum ekki bara að tala um lög af minna tagi — ég hætti mér ekki út í dæmi sem einhver gæti tekið nærri sér — sem við gætum síðan komið með á næsta þing og breytt. Það er ekki þannig. Við erum að tala um það sem kallast á dönskuskotinni íslensku grundvallarlög, stjórnarskrána, sem við ætlum helst ekki að breyta nema á margra ára fresti.

Að vísu hefur verið sagt og er út af fyrir sig dálítið til í því að þessi aðferð okkar í gegnum tíðina, að reyna að tryggja sem mesta samstöðu um málin, hafi gert það að verkum að hægara hafi gengið en ella að endurskoða stjórnarskrána. Það er dálítið til í því en ekki að öllu leyti. Það hefur líka komið fram í umræðunni undanfarnar vikur að þrátt fyrir allt sé búið að breyta um það bil helmingi þeirra stjórnarskrárákvæða sem er að finna í okkar gömlu, góðu stjórnarskrá.

Ég hef líka tekið eftir öðru sem er mjög eftirtekarvert; umræðan hefur alla vega haft eitt gott í för með sér. Í fyrsta lagi tala núna æ fleiri því máli að augljóst sé að það hafi ekki verið stjórnarskráin okkar sem brást eða klikkaði í hruninu mikla haustið 2008. Eins og sumir hafa m.a. bent á var hún eitt af því fáa sem stóðst þegar hrunið mikla varð hið umrædda og sögulega haust því að menn gátu þó stutt sig við ýmsa þætti stjórnarskrárinnar, réttindakafla hennar. Í öðru lagi hef ég tekið eftir því sem er guðsþakkarvert í þessari umræðu að æ fleiri viðurkenna þá staðreynd að í raun og veru er ekki kallað eftir að mörg atriði í stjórnarskránni verði endurskoðuð.

Ég tók til að mynda eftir því í umræðunni að fulltrúi Hreyfingarinnar sagði sem svo: Þegar grannt er skoðað eru það kannski ekki stóru atriðin í stjórnarskránni sem þarf að breyta mikið. Aðalatriðið er að þetta er útlend stjórnarskrá. Hún er frelsisskrá úr föðurhendi Dana og þess vegna þurfum við að breyta henni, stokka hana eitthvað upp og setja okkar mark á hana.

Ég er sammála því að fara þarf yfir tiltekna efniskafla stjórnarskrárinnar. Það eru engar stórar, róttækar breytingar. Ég held að í meginatriðum hafi stjórnarskráin með þeim breytingum sem hún hefur tekið í áranna rás staðist prýðilega tímans tönn. Hún er eins og önnur mannanna verk undirorpin breytingum og ýmsu sem hefur þróast með tímanum. Við tökum t.d. eftir því að á miðjum 10. áratug síðustu aldar gerðum við breytingar á mannréttindakaflanum. Nú hafa ýmsir hreykt sér af og sagt sem svo: Ja það var ekki mikið afrek að endurskoða mannréttindakaflann, það eru allir sammála um mannréttindi. Jú, það eru allir sammála um mannréttindi en það breytir ekki því að löggjöfin, stjórnarskrárlöggjöfin, ekki síst úti í hinum stóra heimi, hafði tekið miklum breytingum á sviði mannréttindamála í hugtökum og ýmsu sem við höfðum ekki gert okkur grein fyrir og hafði skotið rótum og þurfti að bregðast við. Það var ekkert áhlaupaverk, það er rangt að halda því fram. Þetta var vandasamt verk og menn töldu a.m.k. á þeim tíma að það hefði verið býsna mikið afrek að komast að þeirri sameiginlegu niðurstöðu sem þá fékkst.

Ég hygg með flest þessara atriða að við getum við vel náð saman um mörg þeirra, sennilega velflest ef ekki öll. Mér hefur t.d. fundist mjög sérkennilegt hvernig menn hafa teflt þessu máli í óþarfaágreining um efnisatriði. Ég hef gert formið sjálft að umtalsefni, að verið sé að fikra sig inn á nýjar leiðir, og við sjálfstæðismenn höfum fundið því ýmislegt til foráttu með rökum en það er líka spurning um efnisatriði sem menn vilja huga að. T.d. hafði hæstv. forsætisráðherra uppi stór orð eftir að Hæstiréttur felldi úrskurð sinn á sínum tíma og hrópaði út í þingsalinn og inn í sjónvarpsvélarnar ókvæðisorð um okkur sjálfstæðismenn, að við vildum ekki standa að stjórnarskrárendurskoðun, við værum svo hræddir um að hróflað yrði við eignarréttinum varðandi auðlindirnar. Þetta er allt saman fjarstæða. Við höfum þvert á móti verið í fyrirsvari fyrir það, til að mynda var ég sjálfur í ráðherraskipaðri nefnd um að setja inn ákvæði í þá veru.

Við skulum að minnsta kosti gæta okkur á einu ef við ætlum að endurskoða stjórnarskrána. Við höfum alltaf reynt að gera það í sátt og við hljótum a.m.k. að gera þá lágmarkskröfu til stjórnvalda, alveg sérstaklega, og almennt til okkar sjálfra að við séum ekki að tefla málinu í ágreining (Forseti hringir.) að óþörfu og gera ágreining um efni sem enginn ágreiningur er um.