139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[21:56]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ástæðan fyrir því að ég velti þessu upp er að ákvæði um eignarhald á auðlindunum hefur í gegnum tíðina verið sagt eitt af helstu deilumálunum varðandi stjórnarskrána. Auðvitað má nefna ýmis önnur atriði eins og stjórnskipunarvaldið og dómstóla og ýmislegt annað en eftir því sem ég hef kynnt mér það hafa deilurnar einna helst staðið um hvort kveða þyrfti fastar að. Nú gerðist það að í þessari nefnd náðu menn saman um að rétt væri að kveða fastar að orði og þá um náttúruauðlindirnar í heild.

Nú gef ég mér það að um þetta ríki enn þá mjög mikil sátt, þ.e. að tekið verði á þessu í stjórnarskránni. Þá velti ég fyrir mér hvort hv. þingmaður sé mér sammála um að það ætti að vera hægt að fara sömu leið með önnur atriði ef menn ætla ekki að skrifa stjórnarskrána algjörlega upp á nýtt. Sumir vilja það kannski en það er ýmislegt ágætt í blessaðri stjórnarskránni okkar. Í henni eru atriði sem við höfum heyrt deilur um eða menn hafa haft skiptar skoðanir á, t.d. synjunarvald forseta, 26. gr. minnir mig, og eins varðandi skipun dómara og þess háttar. Í ljósi reynslunnar, í ljósi þess að það náðist í rauninni samkomulag og sátt um það gríðarlega stóra mál sem er eignarhald eða skilgreining á því hver eigi þessar auðlindir, telur hv. þingmaður þá ekki að það væri tilraunarinnar virði að þingmenn leystu úr hinum málunum einnig fyrst þessi andi ríkir? Það er klárlega breyting á andrúmsloftinu á þingi og meðal þingmanna.