139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[22:23]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Það væri óskandi að fleiri þingmenn tækju þessu máli af sömu yfirvegun og hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson, að menn önduðu djúpt og segðu: Gott og vel, málið er komið í öngstræti, við skulum reyna að ná breiðri sátt í því.

Ég vil því sérstaklega fagna þessum orðum og skýru svari hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar því að ég tel að enn sé lag til þess að við getum farið í að breyta stjórnarskránni, sem við viljum öll hér inni, en við viljum auðvitað fara mishratt í það. Það er ljóst að sumir vilja fara hraðar en aðrir. Meginmálið er það að við stöndum uppi með góða stjórnarskrá sem við öll virðum og förum eftir. Þess vegna vil ég þakka hv. þingmanni fyrir hans skýru svör í þessu.