139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[22:34]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir alveg ágæta ræðu en mér finnst vanta ýmislegt í hana, hann komst kannski ekki yfir það vegna tímaskorts. Þar er fyrst að nefna hvort hann telji eða taki undir að það sé nauðsynlegt að breyta 79. gr. stjórnarskrárinnar þannig að þjóðin greiði atkvæði um sína eigin stjórnarskrá. Það gerir hún ekki samkvæmt núverandi fyrirkomulagi í stjórnarskrá því að með sérhverri breytingu á stjórnarskránni, eftir að búið er að samþykkja hana á Alþingi, þarf að rjúfa þing og þá fer fram almenn kosning til Alþingis, ekki sérstaklega um stjórnarskrána. Þá kjósa menn um eitthvað allt annað en stjórnarskrána. Telur hann ekki nauðsynlegt að breyta 79. gr. nú þegar, að þingmenn verði tilbúnir ef það skyldi þurfa að rjúfa þing og efna til kosninga? Það getur gerst í hverri viku eins og kunnugt er.