139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[22:37]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð alltaf hálfskelkaður þegar hv. þm. Pétur H. Blöndal talar um einfaldar spurningar því að þær eru oft og tíðum frekar flóknar þegar hann notar þetta orðfæri.

Af hverju hefur gengið illa að endurskoða eða breyta stjórnarskránni? Án þess að ég hafi hugmynd um það, hv. þingmaður, dettur mér í hug ríkjandi íhaldssemi í samfélaginu gagnvart breytingum. Menn hafa gjarnan horft á stjórnarskrána sem plagg sem lítið eigi að breyta. Mér finnst hins vegar andrúmsloftið í dag sýna vilja til að endurskoða stjórnarskrána, ég hef þó ekki séð ástæðu til að gjörbylta henni.

Hvað er stjórnarskrá? Stjórnarskrá er að mínu viti grundvallarplagg lýðveldisins og lýðræðisins sem bæði setur okkur ákveðnar leikreglur og verndar um leið ákveðna hagsmuni, sérstaklega einstaklingsins. Hún á að endurspegla mannréttindi, rétt til að velja sér leiðtoga, kjósa og slíkt. (Forseti hringir.) Það er mikilvægi stjórnarskrárinnar.