139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[22:59]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Af orðum hennar má ráða að þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafi velt því mjög fyrir sér hverju megi breyta, hverju nauðsynlegt sé að breyta í stjórnarskránni. Fram hefur komið að 79. gr. er undir í því og eins hefur komið fram að það að kveða á um eignarhald á náttúruauðlindunum gæti líka hugnast Sjálfstæðisflokknum. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort það séu einhver ákveðin atriði sem svona í fljótu bragði — ég geri mér grein fyrir því að þetta er kannski ekki mjög einföld spurning — væru núningspunktar við breytingar á stjórnarskrá, því að ég held að það sé nauðsynlegt að ræða hvert mál til hlítar.

Ég vil því fagna þeim bolta sem hv. þingmaður henti hér upp varðandi það að allir kæmu að þessu. Eitt af því sem hefur verið fundið að stjórnarskrá okkar er að hún sé dönsk, þ.e. að við höfum fengið hana á silfurfati. Nú erum við að keppast við það sem kölluð er norræn velferðarstjórn, væntanlega þá með Norðurlöndin til fyrirmyndar varðandi uppbyggingu þjóðfélags okkar. Er hin danskættaða stjórnarskrá þá svo alslæm vegna þess að hún er dönsk?

Ég er kannski helst að falast eftir svari við spurningunni: Hver er ástæðan fyrir því að breyta þarf stjórnarskránni? Er það tíðarandinn, er það vegna þess að hún er barn síns tíma? Eða er það vegna þess að þetta er náttúrlega orðið nokkuð gamalt plagg? Við hljótum að þurfa að velta því fyrir okkur hvaða hvatar liggi að baki breytingum á stjórnarskrá.