139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[23:11]
Horfa

Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Kallaðir voru til þeir sérfræðingar sem voru staddir á landinu. Óskað var eftir nærveru þeirra sérfræðinga sem hér hafa verið nefndir, Eiríks Tómassonar og Bjargar Thorarensen, en þau voru ekki stödd á landinu í þeirri viku sem þessi vinna fór fram.

Ég vil líka taka það fram að margir í stjórnarmeirihlutanum og margir þeirra sem styðja þessa tillögu töldu að uppkosning væri eðlilegasta leiðin, það voru margir sem hefðu gjarnan viljað fara þá leið. Ég var fyrir mitt leyti mjög eindregið þeirrar skoðunar að nýta tækifærið, þegar lá fyrir, og fara með Icesave 3 í þjóðaratkvæðagreiðslu og halda uppkosningu samhliða því. En Sjálfstæðisflokkurinn lagðist mjög eindregið gegn því einn eftirmiðdaginn í þessum ræðustól, margir þingmenn fóru upp, og það var mat mitt og margra annarra í stjórnarmeirihlutanum að hlusta bæri á þær röksemdir sem Sjálfstæðisflokkurinn bæri fram. Þess vegna meðal annars var ákveðið að fara frekar þessa leið.

Eftir því sem vinnunni hefur síðan undið fram hef ég orðið æ sannfærðari um að þetta sé mjög góð leið til að leysa úr þeim vanda sem við vorum komin í. Það hefur hins vegar verið þannig, í þessu máli eins og svo mörgum öðrum, að menn hafa eftir fremsta megni reynt að hlusta á sjónarmið stjórnarandstöðunnar og fara eins og í þessu tilfelli að ráðum hennar. Það er hinn eðlilegi farvegur mála, það er fullkomlega eðlilegt að tekið sé tillit til sjónarmiða stjórnarandstöðunnar. Það er líka eðlileg krafa og sjálfsögð að stjórnarandstaðan geri grein fyrir því og reyni ekki að draga upp ósanna mynd af því. Og að halda því fram að við séum hér í einhverjum sérstökum leik til að koma óorði á Sjálfstæðisflokkinn, eins og haldið var fram hér fyrr í kvöld, þá hefur Sjálfstæðisflokkurinn algjörlega séð um það sjálfur.