139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[23:15]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér í síðari umr. tillögu til þingsályktunar um skipun stjórnlagaráðs. Ég ætla að byrja á að ræða aðeins orðaskipti milli hv. þm. Þorgerðar K. Gunnarsdóttur og hv. þm. Róberts Marshalls.

Ég get tekið undir það með hv. þm. Róberti Marshall að þegar ákveðið var að skipa stjórnlagaþing á sínum tíma breyttist málið mjög mikið í meðförum allsherjarnefndar. Ég sagði í ræðustól þegar það mál var afgreitt á haustþinginu að þar hafi mér fundist vinnan vera til fyrirmyndar. Þar var komið til móts við sjónarmið og eins og hv. þingmaður benti réttilega á, þegar menn ætla að ná samkomulagi um einhverja ákveðna hluti verða menn að gefa eftir allir sem einn. Öðruvísi verður ekki samkomulag, það er mín persónulega skoðun. Ég hefði talið betra — eins og ég upplifði fyrstu viðbrögð þegar niðurstöður Hæstaréttar voru kynntar fannst mér menn, sumir hverjir alla vega, fara mjög bratt í þá umræðu, mjög bratt — ég hefði talið skynsamlegra að menn hefðu dregið aðeins andann og ákveðið að fresta þessu máli fram á haustið eða segja: Nú skulum við leita samráðs — og ekki bara í örfáa daga því að það er nú ekki eins og hér vanti verkefni — nú skulum við setjast niður og hafa ekki alla þessa einstaklinga í óvissu um hvað verður. Verður stjórnlagaráð samþykkt á Alþingi, hvert verður umboðið? Verður þetta samþykkt með veikum meiri hluta? Vegna þess ágæta fólks sem hlaut kosningu, eða kosningu sem var síðan ógilt af Hæstarétti, hefði verið miklu skynsamlegra að gera þetta, tel ég. Þá hefðum við líka getað rætt það og hv. allsherjarnefnd hefði gert það hvað hefði t.d. mátt læra af þeim kosningum sem fóru fram og gefið okkur aðeins tíma til að anda.

Ég held hins vegar, a.m.k. eins og ég skildi skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, að það væri mjög æskilegt að þingið gæfi sér oftar betri tíma, þó að ég sé ekki að halda því fram að það fólk sem leggur fram þessa tillögu sé ekki að reyna að vanda sig, alls ekki, en ég held að það hefði verið mun skynsamlegra að gefa sér betri tíma. Þá hefðum við getað komist að betri niðurstöðu, held ég, og í raun og veru látið reyna á hvort hægt væri að ná lendingu. Mér þótti t.d. mjög dapurlegt þegar verið var að ræða fyrstu viðbrögð eftir úrskurð Hæstaréttar sem ógilti kosninguna og hæstv. forsætisráðherra kom upp í ræðustól, stóð á garginu og fór með rangt mál og hélt því fram að Sjálfstæðisflokkurinn og fulltrúar hans á þingi vildu ekki breyta auðlindaákvæðinu, þegar fyrir liggur að það er ekki satt. Það hefur komið fram, sem var ítrekað áðan og hv. þm. Þorgerður K. Gunnarsdóttir benti réttilega á, að það liggur fyrir og í niðurstöðu sáttanefndar um sjávarútvegsmálin er þetta lagt til. Það er enginn ágreiningur um það. Ég hefði talið betra að menn hefðu rætt þetta af meiri yfirvegun og eins og ég sagði áðan hefðum við líka getað rætt og farið yfir hvað hefði mátt læra af þessu.

Mín skoðun er sú að þetta hafi verið alger sönnun á því hversu erfitt er að hafa landið eitt kjördæmi, að vera með persónukjör, að vera með 523 einstaklinga í framboði. Og síðan hvernig staðið var að kynningunni. Við getum lært margt af því og hefðum getað gert margt öðruvísi ef menn hefðu viljað endurtaka leikinn og hefði það verið meirihlutavilji Alþingis að kjósa aftur til stjórnlagaþings, sem ég er ekki sammála en það er svo annað mál.

Virðulegi forseti. Það sem verið er að gera hér er ekki mjög flókið, a.m.k. ekki að mínu viti. Það er verið að skipta um nafn á stjórnlagaþingi í stjórnlagaráð. Það er ekki flóknara en það. Þar eiga að vera sömu einstaklingar og kosnir voru í kosningunum sem ógiltar voru og þetta á að heita stjórnlagaráð. Í rauninni er verið að skipta um nafn og kennitölu. Annað er ekki verið að gera.

Það má lesa um skilning mun fróðari manna en ég er á lögunum, hægt er að vitna í marga lögspekinga sem halda því fram að þetta sé sísti kosturinn, alveg sama hvort það er Róbert Spanó eða Ragnhildur Helgadóttir. Við getum vitnað í fleiri, Sigurð Líndal, sem er virtur fræðimaður, og hann segir, með leyfi forseta:

„Nú liggur fyrir þingsályktun um að skipa 25 manna stjórnlagaráð og binda skipun þeirra og varamanna við þá sem hlutu kosningu til stjórnlagaþings eða með öðrum orðum binda kjörið við hóp manna sem hlutu ógilda kosningu og eru því umboðslausir. Með þessu er Alþingi í reynd að fella ákvörðun Hæstaréttar úr gildi og ganga inn á svið dómsvaldsins. Jafnframt virðir Alþingi ekki þrískiptingu ríkisvaldsins og brýtur þannig gegn stjórnarskránni, eða að minnsta kosti sniðgengur hana. Um leið ómerkir þingið eigin ákvörðun um að fela Hæstarétti endanlegt ákvörðunarvald.“

Þetta eru nokkuð stór orð og þetta er ekki mjög umdeildur fræðimaður þannig að ég er ekki hissa á því þó að margir hv. stjórnarliðar séu með óbragð í munninum.

Síðan hefur líka komið fram að það eru ekki bara við í þingflokki sjálfstæðismanna sem erum andvígir þessu. Tveir stjórnarþingmenn og einn hæstv. ráðherra, sem vill svo til að er fagráðherra dómsmála í landinu, eru andvígir því sem verið er að gera hér, sem verið er að leggja til, að ganga á svig eða hunsa niðurstöðu Hæstaréttar. Það er mjög sérkennilegt eftir alla umræðuna um rannsóknarskýrslu Alþingis og öll stóru orðin um að nú eigi að breyta vinnubrögðum og svo ef eitthvað aðeins reynir á er þetta bara verra en það var. Það er niðurstaðan, það er hinn blákaldi veruleiki.

Hvers vegna er verið að gera þetta? Ég átta mig ekki á því. Margir hv. þingmenn stjórnarliðsins segja að það sé krafan í samfélaginu að skrifuð verði ný stjórnarskrá. Sú krafa endurspeglast í því að í þessum kosningum var minnsta þátttaka í kosningum á lýðveldistímanum, 37% tóku þátt í kosningunum, ef ég man rétt. Það var öll krafan þrátt fyrir ákall stjórnvalda um að taka þátt í kosningunum. Gerð var könnun á Eyjunni í desember þar sem kom fram að 1,8% þjóðarinnar töldu að það mikilvægasta sem Alþingi ætti að beita sér fyrir væri að koma á og skrifa nýja stjórnarskrá. Þetta sýnir bara taktleysið og hversu víðs fjarri raunveruleikanum skilningur stjórnvalda er. Það er ekki flóknara en það. Hv. þingmenn í stjórnarmeirihlutanum skynja ekki ákall þjóðarinnar um það sem þarf að gera betur en þetta.

Það hefur enginn getað bent á með haldbærum rökum að eitthvað sem í stjórnarskránni stendur skrifað hafi í raun og veru orsakað hrunið. Þvert á mót er það kannski eitt af því fáa sem var ekki orsakavaldurinn að hruninu.

Ég er síðan mjög hugsi yfir því sem ég les í nefndarálitum frá hv. allsherjarnefnd sem kemur mjög skýrt fram bæði hjá 1. og 2. minni hluta. Fyrsti minni hluti bendir á að til að mynda prófessorar í stjórnskipunarrétti við Háskóla Íslands, Eiríkur Tómasson og Björg Thorarensen, hafi ekki verið látnir mæta fyrir allsherjarnefnd. (Gripið fram í: Það var óskað eftir því.) Síðan segir hv. þm. Róbert Marshall, sem er formaður allsherjarnefndar, að það hefði ekki náðst innan þeirra tímamarka sem nefndin hafði til að fjalla um málið. Eigum við ekki að staldra hér aðeins við? Getur verið að tímamörkin hafi verið of knöpp fyrst ekki var hægt að kalla þessa prófessora fyrir nefndina? Hefði ekki verið eðlilegra að nefndin endurskoðaði tímamörkin til að vanda vinnubrögðin? Ég hefði talið það æskilegt. Reyndar kemur margt annað mjög gott fram í þessu nefndaráliti, t.d. að það sé sennilega einsdæmi að Alþingi afgreiði þingmál sem varðar endurskoðun á stjórnarskránni með þessum hætti, sennilega einsdæmi. Síðan er mjög góð greining á því í þessu nefndaráliti þar sem er dregin upp annars vegar breytingin á því sem var upphaflega áætlað í stjórnlagaþinginu og hins vegar stjórnlagaráðinu. Niðurstaðan er sú að það er í raun og veru ekki verið að breyta neinu nema því að í staðinn fyrir að kjósa mun Alþingi skipa stjórnlagaráð.

Síðan kemur líka fram í áliti 2. minni hluta sem ég verð að viðurkenna að mér brá við að lesa. Ég á ekki sæti í hv. allsherjarnefnd en, með leyfi forseta, langar mig að lesa upp úr þessu áliti:

„Allsherjarnefnd hafði til umfjöllunar minnisblað frá fulltrúa yfirkjörstjórnar í Reykjavíkurkjördæmi suður þar sem m.a. eftirfarandi kemur fram: „Sumir innsláttaraðilar stunduðu „skapandi“ úrlestur, giskuðu á tölu, og breyttu svo passaði við frambjóðanda. Fyrir kom að eingöngu síðasta talan var „misskráð“ hjá kjósanda og tóku innsláttaraðilar sér þá stundum vald til að setja inn „rétta“ tölu. Þess ber að geta að kerfið bauð upp á að öllum tölum yrði breytt svo tæknilega séð gátu innsláttaraðilar skráð þá tölu sem þeim hugnaðist.“

Ég verð að viðurkenna, virðulegi forseti, að mér var brugðið þegar ég las þetta. (Gripið fram í.) Mér var bara verulega brugðið. Svo gera menn því skóna að það hafi kannski verið þannig og menn þurfi ekki alltaf að vera sammála niðurstöðu Hæstaréttar. En ég verð að viðurkenna að þegar slíkt kemur frá fulltrúa í yfirkjörstjórn er mér verulega brugðið.

Það er oft og tíðum auðvelt að gagnrýna, það vill oft vera þannig, hvort sem það er ég eða einhver annar, en ég ítreka hins vegar að það hefði verið eðlilegra að gefa sér tíma til að draga andann og reyna að ná sátt eins og náðist í allsherjarnefnd á fyrri stigum málsins. Ég tel að það hefði verið betra og að menn hefðu getað velt upp mörgum möguleikum. Við skipuðum stjórnlaganefnd sem, eins og kemur fram í nefndaráliti, er búin að gera heilmikla skýrslu og það eru mikil gögn sem bíða úrlausnar. Síðan hefðu menn getað rætt hvort hægt væri að stækka þá nefnd eða handvelja úr hópnum. Það eru margar aðferðir til. Menn hefðu eflaust getað rætt þetta og komist að niðurstöðu, a.m.k. hef ég þá trú. En svo er líka það að ef einhver tekur ekki sæti í stjórnlagaráðinu, sem við vitum ekkert um þar sem ekki hafa allir gefið það upp, er ekki alveg sjálfgefið að það sé þannig að sá sem var næstur komi inn, af því að ef einn dettur út getur öll röðin fyrir neðan ruglast. Það eru margir annmarkar á þessu mál en fyrst og fremst finnst mér að það sé verið að draga úr eða réttara sagt sniðganga niðurstöðu Hæstaréttar.

Þá langar mig aðeins að koma inn á það, virðulegi forseti, og nota til þess síðustu mínúturnar, ég sagði í ræðu minni áðan að ég teldi að stjórnarskráin væri ekki orsök hrunsins og að ekkert í henni hefði orsakað hrunið, að maður veltir fyrir sér hvað hefði verið skynsamlegast að gera, hver forgangsröðin hefði átt að vera eftir efnahagshrunið. Hún hlýtur klárlega að þurfa að endurspeglast í störfum okkar, verkefnin blasa við okkur eftir þetta efnahagshrun, en hún er ekki að skipa stjórnlagaþing, það er alveg ljóst. Verkefni stjórnvalda eru og eiga að vera þau að koma atvinnuuppbyggingunni í gang og spurningin sem við ættum að ræða hér alla daga er hvernig við komum atvinnunni í gang og sköpum störf til að fólk hafi tekjur og geti séð sér farborða.

Á árinu 2011 er reiknað með að fjárlagahalli ríkisins verði 37 milljarðar í lok árs — við þurfum ekki að rifja upp þær erfiðu umræður og aðgerðir sem voru hér síðastliðið haust við gerð fjárlaga, skattahækkanirnar eru komnar á endastöð og rúmlega það — að ef allt gengur eftir sem lagt er upp með í fjárlögum ársins 2011 verði hallinn 37 milljarðar. Því miður bendir margt til þess að sú verði ekki niðurstaðan, hallinn gæti orðið nokkrum tugum milljarða hærri. Því miður er það svo, virðulegi forseti, að það er verið að draga úr hagvaxtarspám vegna stöðnunar í atvinnulífi, það er allt í frosti. Og þá koma hæstv. ráðherrar hingað og segja að þeir hafi náð miklum árangri, verðbólgan sé komin niður og vextirnir. Það er ekki þeirra verk, það er bara kreppan sem er að taka þetta niður. Það er alger stöðnun í þjóðfélaginu, alger stöðnun, og tölur fyrstu mánuði þessa árs benda til algers hruns í nokkrum veigamiklum þáttum.

Við eigum ekki að vera að bruðla með peninga eins og við erum að gera hér. Þegar niðurstaðan var fengin áttum við að segja: Hingað og ekki lengra, nú skulum við geyma þetta mál og fara að koma okkur í það að byggja upp atvinnu fyrir fólkið. Nei, það skal haldið áfram að eyða frekar peningum í það sem ég leyfi mér að kalla hálfgert bruðl.

Við ræddum fyrir nokkrum dögum og fengum upplýsingar inn í þingið um hvað hefði verið gert. Búið er að segja upp 550 starfsmönnum hjá ríkinu eða stöðugildum hefur fækkað um 540 og þar af eru 470 konur. Við erum ekki tilbúin að setja frekar peninga í að skapa störf og atvinnu fyrir fólkið, við viljum setja þá í einhver gæluverkefni. Ég tel þetta ekki rétta tímann til þess, það er mín skoðun. Við eigum að reyna að verja störfin og þá verjum við heimilin og fjölskyldurnar. Það er ákallið. Eftir hrunið hafa margir sagt að það sé ákallið. Auðvitað er ákallið hjá fólkinu að laga skuldavanda heimilanna, skuldavanda fyrirtækjanna, að skapa störf og atvinnu svo fólk geti séð sér farborða. Það á að vera verkefnið. Þess vegna er forgangsröðin á verkefnunum og verkstjórnin í ríkisstjórninni hjá hæstv. forsætisráðherra algerlega á skjön við allt sem þarf að gera. Það er eins og fólk skynji ekki hlutverk sitt og verkefni, að koma þjóðinni á lappirnar á ný. Það væri kannski nær fyrir hæstv. ríkisstjórn að fara hringferð um landið eða kíkja á nokkra staði, til að mynda í sjávarplássin þar sem allt stendur á höndum núna. Það hefur aldrei verið annað eins fiskirí við landið. Það er nýbreytni, til að mynda á mínum heimaslóðum, að nú geta menn ekki látið netin liggja yfir nótt. Þeir verða að fara út á morgnana og leggja þau eins og gert er við línu, þetta hefur aldrei verið gert fyrr, vegna þess að ef þau liggja yfir nótt ná þeir þeim ekki inn, það er svo mikið af fiski. (Gripið fram í.) Það er mjög ánægjulegt, ég er algerlega sammála hv. þingmanni um það. En af hverju nýtum við þá ekki tækifærið og förum að skapa atvinnu, skapa gjaldeyri til að geta skapað störf? Vegna þess að verkefnið í haust, sem ég hræðist mjög mikið, er það að við þurfum að fara í mjög erfiðar aðgerðir, að segja upp fólki og skera niður. Ég held og hræðist að í haust verði spurningin ekki sú, ef menn ætla að taka á vandamálum sem heita ríkisfjármál, hvort eigi að skera niður um 1, 2, 3 eða 4%, heldur verði spurningin sem hv. þingmenn verða að svara þá: Hvaða stofnunum á að loka? Hvaða háskóla á að leggja niður? og þar fram eftir götunum. Valið stendur um það ef við komum ekki atvinnuppbyggingunni í gang og förum ekki að skapa störf. Ef við ætlum að taka á ríkisfjármálunum, sem við verðum að gera, verður þetta valið, að við verðum að loka þessum háskóla eða hinum háskólanum. Það er ekki val um að skera niður 1, 2, 3 eða 4%, því miður. Ég hræðist þetta mjög en ég ætla svo sannarlega að vona að ég hafi rangt fyrir mér og þessar áhyggjur mínar reynist óþarfar. Því miður bendir allt til þess að þetta verði hinn blákaldi veruleiki.