139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[23:37]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Mín skoðun er sú að það sé lítil hætta á því að hv. þingmenn geti ekki náð samkomulagi um endurskoðun á stjórnarskránni.

Ég fór vel yfir það í ræðu minni áðan að mér fannst að þegar við ræddum þetta fyrst á haustþinginu hefði verið tekið tillit til margra sjónarmiða sem komu fram, m.a. frá fulltrúum okkar, hv. þingmönnum í allsherjarnefnd. Við munum alveg hversu slæm þessi tillaga var í upphafi, það er a.m.k. mín skoðun. Hún var betrumbætt. Það voru allir sammála um það þegar þeir fóru að draga andann að auðvitað væri ekkert vit í því að hafa ekki stjórnlaganefnd til að undirbúa farveginn, það sagði sig alveg sjálft og gaf augaleið. Niðurstöðu þess starfs höfum við núna undir höndum og getum unnið með hana. Ef menn draga aðeins andann og hefðu gert það í upphafi hef ég engar áhyggjur af því.

Ég kom líka inn á það í ræðu minni hvernig menn brugðust við þessu. Þegar hæstv. forsætisráðherra, sem á að bera og ber ábyrgð á því að koma okkur út úr þessu ástandi, verkstjóri ríkisstjórnarinnar, kemur í ræðustól og segir að sjálfstæðismenn gangi hér erinda einhverra ákveðinna afla og séu að reyna að verja hagsmuni þeirra talar hún í raun og veru að gegn betri vitund. Ég tel að það hafi varla farið fram hjá hæstv. forsætisráðherra, hún hefur lesið niðurstöður sáttanefndar í fiskveiðistjórnarkerfinu og það hefur komið fram í fjölmiðlum.

Af hverju er hæstv. forsætisráðherra með þennan málflutning þegar hæstv. forsætisráðherra á að vita betur? Ég bara spyr. Mér er þetta algjörlega hulin ráðgáta. Ég verð að viðurkenna að þetta er eitt af þeim mörgu tilfellum sem mér finnst hæstv. forsætisráðherra ekki átta sig á þeirri stöðu sem hún er í, að hún eigi að reyna að leiða þjóðina út úr þeim vandamálum og frekar að ná sáttum en að efna alltaf til ófriðar. Ég tel að hv. þingmenn (Forseti hringir.) geti klárlega endurskoðað stjórnarskrána.