139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[23:42]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að aðferðin við að hafa landið eitt kjördæmi og persónukjör með svona marga einstaklinga í framboði og þessi kosningaúrslit séu algjör staðfesting á því að þetta er ekki framkvæmanlegt. Við eigum að læra það af þessu.

Ég er líka sammála hv. þingmanni um það, og ég fór yfir það í ræðu minni áðan, að þingið hefði átt að ákveða að fresta málinu. Forsætisráðherra hefði einu sinni getað sýnt einhverja forustu og sagt: Ja, nú skulum við bara setja þetta mál til hliðar fram á haustið, gefa okkur tíma til þess að anda og reyna að ná samstöðu um málið, tveir, þrír mánuðir til eða frá skipta ekki máli.

Þá hefði einmitt verið hægt að skoða það sem hv. þingmaður spyr hér um og ég fór yfir í ræðu minni, hvernig staðið er að kynningu á frambjóðendum. Við sáum að aðferðin var mjög gagnrýnd. Í raun var brugðist við á síðustu metrunum með því að kynna frambjóðendur í útvarpi. Þetta hefði hv. allsherjarnefnd átt að fara yfir og við hér í þinginu hefðum átt að ræða um hvernig við hefðum átt að bregðast við þessu.

Síðan er ekki úr vegi að minnast þess að við samþykktum í síðustu viku lög um hvernig ætti að standa að því að kynna Icesave-samninginn þó að mönnum finnist að þetta eigi að vera alveg klárt. Menn eru alltaf að redda sér fyrir horn. Það er ákveðið hér á síðustu stundu að samþykkja lög til að láta innanríkisráðherra fela Lagastofnun að gera kynningu. Þetta á að vera miklu skýrara. Það á að vera algjörlega skýrt hvernig að þessu verður staðið. Þetta er meðal þess sem við hefðum átt að læra af því að fara yfir kosti, galla og niðurstöðuna.

Mín skoðun er alveg klár, persónukjör og landið sem eitt kjördæmi gengur ekki. 525 frambjóðendur, hver er munurinn á þeim? Við þurfum að fara betur yfir þetta og reyna að læra af því, eins og hv. þingmaður lét liggja að, hvernig á að standa að málum (Forseti hringir.) ef við förum aftur í sambærilega kosningu.