139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[23:46]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrir andsvarið. Ég held að greining hv. þingmanns sé nokkuð nærri lagi. Ég tek undir það að ég hélt að þetta mál væri sofnað því að það var búið að liggja í dái dálítinn tíma eins og hv. þingmaður kom inn á.

Ég tók líka eftir því hver voru fyrstu viðbrögð hæstv. forsætisráðherra eftir úrskurð Hæstaréttar. Þá einmitt tefldi hæstv. forsætisráðherra fram þeirri hugmynd að kannski væri mögulegt að gera þetta, en sú tillaga hlaut ekki góðan hljómgrunn. Eftir að ég sá útvalda álitsgjafa koma fram í fjölmiðlum strax á eftir og segja að þetta væri bara mjög skynsamlegt og alveg fær leið og svona þá fékk ég á tilfinninguna að þetta yrði hugsanlega niðurstaðan. Ég er alveg sammála hv. þingmanni um það að þegar menn fara í þessa vegferð — því að þetta er ekki eins og hvert annað lagafrumvarp, við erum að tala hér um sjálfa stjórnarskrá Íslands. Það hlýtur líka að vekja athygli að tveir hv. þingmenn Samfylkingarinnar hafa komið fram og segjast ekki styðja þessa hugmynd. Hæstv. innanríkisráðherra, fagráðherrann sjálfur, styður ekki þessa hugmynd. Það segir kannski allt sem segja þarf og er ekki gott að leggja upp í þessa vegferð með það nesti, ég get tekið undir það.

Ég nefndi það líka í ræðu minni að þegar þú ert með fullt af lögmönnum, virtum lögmönnum, sem benda á að í raun og veru sé verið að sniðganga niðurstöðu Hæstaréttar þá finnst mér — í ljósi allra þeirra fögru orða og fyrirheita þegar menn voru að ræða rannsóknarskýrslu Alþingis, að nú ætti að fara að breyta vinnubrögðunum og gera þetta öðruvísi (Forseti hringir.) og ekki eins og þetta var — þetta bara miklu verra. Það er niðurstaðan.