139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[23:49]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið sem skýrði að mestu leyti það sem ég er að velta fyrir mér varðandi afstöðu hans í málinu. Hann var reyndar búinn að færa ágætisrök fyrir þeirri afstöðu í ræðu sinni.

Getur hv. þingmaður, bara til þess að árétta þetta, tekið undir það að eðli málsins samkvæmt verði stjórnarskrá að vera tiltölulega óumdeild vegna þess að tilgangurinn með henni sé sá að færa í letur þær grundvallarreglur sem almenn samstaða er um í samfélaginu? Er hann sammála mér um að þar af leiðandi sé einstaklega óheppilegt að ætla að semja þær grundvallarreglur í ágreiningi? Er hann með öðrum orðum sammála mér um það að þessi leið feli í sér ákveðna þversögn?

Stjórnarskrá er hugsuð sem útlistun á því sem menn eru meira og minna sammála um sem grundvallarreglur. Það að semja slíkt í ágreiningi, er það ekki í raun þversögn? Væri þá ekki betra að skoða málið frá grunni og kanna möguleikann á því til að mynda að kjósa aftur til stjórnlagaþings þar sem tekið yrði tillit til þeirra vankanta sem komið höfðu í ljós jafnvel áður en Hæstiréttur úrskurðaði. Áður en sú niðurstaða lá fyrir voru óneitanlega komnir í ljós ýmsir gallar, sem gæfist þá tækifæri til að laga og yfirfara. Til að mynda mætti reyna að hanna fyrirkomulagið þannig að þátttaka yrði betri, áhugi almennings meiri og við fengjum þá hugsanlega meira þversnið þjóðarinnar svo að maður noti nú þann frasa.