139. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2011.

störf þingsins.

[14:12]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Það eru ekki málefni löggjafans að taka ákvarðanir um mannaráðningar innan stjórnsýslu ríkisins, slíkt er á ábyrgð ráðherra. Þegar umboðsmaður Alþingis eða annar eftirlits- og úrskurðaraðili telur að ekki hafi verið farið að lögum eða unnið samkvæmt góðri stjórnsýslu kemur til kasta eftirlitshlutverks löggjafans, sama hver á í hlut. Þegar jafnafdráttarlaus úrskurður og hér um ræðir liggur fyrir er eðlilegt að hæstv. forsætisráðherra veiti Alþingi skýringar. Forsætisráðuneytið hefur þegar kynnt í hvaða ferli málið fer og mun hæstv. ráðherra væntanlega skýra þinginu nánar frá því ferli.