139. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2011.

jafnréttismál -- atvinnumál -- umsókn að ESB o.fl.

[14:25]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég ætla að gera aðeins að umtalsefni það mál sem hv. þm. Pétur Blöndal vakti máls á og varðar umsóknina að Evrópusambandinu. Það mál er í því ferli sem lagt var upp með. (PHB: Hvað?) Það er rétt sem hv. þm. Ásmundur Einar Daðason lét koma fram, það voru skiptar skoðanir um þetta mál strax í upphafi. Við myndun þessarar ríkisstjórnar varð að samkomulagi milli flokkanna að setja það mál í ákveðið ferli, þingsályktunartillaga kæmi til umfjöllunar á Alþingi og báðir flokkar gengju óbundnir til þess máls og síðan yrði fylgt þeirri niðurstöðu sem Alþingi kæmist að. Við þekkjum það að Alþingi tók ákvörðun um að senda inn umsókn (Gripið fram í.) byggða á nefndaráliti meiri hluta utanríkismálanefndar. Ég tel sjálfur að það ferli sem núna er í gangi sé í samræmi við það nefndarálit. (VigH: Rangt.)

Það er mjög ánægjulegt að við í utanríkismálanefnd höfum átt marga fundi með okkar samningafólki, einstaka fagnefndir eftir atvikum hafa líka átt fundi um málið þar sem farið hefur verið yfir þá rýnivinnu sem er í gangi. Við stöndum frammi fyrir stórum ákvörðunum á næstunni í þessu efni þegar þarf að móta hina eiginlegu samningsafstöðu Íslands. Þá mun virkilega reyna á hvort það verður samstaða um þær áherslur sem við viljum leggja og hvort við síðan náum þeim fram. Þá getur auðvitað komið til þess að við þurfum að taka ákvarðanir um það hvort við viljum halda því ferli áfram sem við lögðum af stað í eða ekki. Það sjónarmið hefur margoft komið fram af minni hálfu að það gerist þegar samningsafstaðan og hinar raunverulegu samningaviðræður byrja sem við komum að þeim tímamótum. Ég tel ekki tímabært að taka neinar aðrar ákvarðanir en þær sem Alþingi hefur nú þegar tekið á þessu stigi málsins og ég tel að við eigum öll að vinna í samræmi við samþykkt meiri hluta Alþingis. Það er lýðræðisleg niðurstaða Alþingis (Forseti hringir.) og öllum ber skylda til að gera það, bæði hér á þingi og úti í stjórnkerfinu.