139. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2011.

jafnréttismál -- atvinnumál -- umsókn að ESB o.fl.

[14:36]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Vegna orða hv. þingmanna um mál Landsbankans og DV vil ég upplýsa hv. stjórnarþingmann, sem er augljóslega ekki meðvitaður um það, að Landsbankinn er ríkisbanki og allir bankaráðsmenn þar eru fulltrúar sem eru skipaðir af Bankasýslunni, sem er á ábyrgð hæstv. fjármálaráðherra. Það eru því hæg heimatökin að koma skilaboðum þangað inn. En það er einhvern veginn þannig að enginn ber ábyrgð hjá þessari hæstv. ríkisstjórn.

Rætt hefur verið um kærunefnd jafnréttismála. Ég vil rifja það upp að hæstv. forsætisráðherra hafði forgöngu um það að breyta lögunum, m.a. jafnréttislögum sem sneri m.a. að kærunefndinni. Hvernig var sú breyting? Jú, breytingin var þannig að úrskurðir kærunefndar í jafnréttismálum urðu bindandi í stað álita. Núna kemur hæstv. forsætisráðherra og segir að þetta sé bara plat, hún sé ósammála þessu.

Við búum í landi, virðulegi forseti, þar sem framkvæmd kosninga var úrskurðuð ógild. Þá kom hæstv. innanríkisráðherra, sem fer með dómsmál, og sagði að hann væri algerlega ósammála þeim úrskurði Hæstaréttar. (Gripið fram í.) Virðulegi forseti. Hann kallar hér undarlega.

Það er upplýst í blöðunum að ríkissaksóknari telur að hæstv. forsætisráðherra hafi ráðist á embætti ríkissaksóknara, hvorki meira né minna. Virðulegi forseti. Þetta er ríkisstjórnin sem er alla daga með einhvern fallegan orðaflaum og hefur meira að segja gengið svo langt að búa til sérstaka stjórnsýsluskóla Stjórnarráðsins. (Forseti hringir.) Ég spyr, virðulegi forseti, hv. þingmenn stjórnarmeirihlutans í fullri alvöru: (Forseti hringir.) Hversu lengi á þetta að ganga svona? Finnst hv. þingmönnum þetta í himnalagi?