139. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2011.

staða Íbúðalánasjóðs.

[15:05]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Frú forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga efni en Íbúðalánasjóður er, held ég að okkur flestum finnist, afar mikilvægur þátttakandi á íbúðalánamarkaði og hlutverk hans mikilvægt. Sjóðurinn hefur ekki farið varhluta af afleiðingum hrunsins, fasteignabólunnar, rangra ákvarðana í stjórnkerfinu, til að mynda 90% lánin, þrátt fyrir aðvaranir annars staðar úr því sama kerfi um að stíga frekar á bremsuna á þenslutímum. Teknar voru vanhugsaðar ákvarðanir um lánveitingar, m.a. austur á landi í stórum stíl og þar situr sjóðurinn nú uppi með töluverðan stabba af eignum sem ólíklegt er að hann geti losnað við á auðveldan hátt.

Að mínu mati er algjörlega ómögulegt að segja til um afskriftaþörf Íbúðalánasjóðs á þessu stigi, það verður í rauninni ekki hægt fyrr en kemur fram á haustið, þ.e. þegar staðan í ljósi úrlausnarinnar, 110%-leiðarinnar, staðan í ljósi niðurfærslu gengistryggðra lána o.s.frv. verður ljós. Vonandi, og það er væntanlega ætlun okkar allra, mun betri skuldastaða heimilanna með tilliti til annarra lána en íbúðalána leiða til bættrar greiðslugetu með tilliti til lána sjóðsins. Staðan varðandi lán til lögaðila mun hins vegar lítið breytast. Þar er orðin nokkuð ljós sú afskriftaþörf sem liggur fyrir og raunar kom hæstv. ráðherra lítið eitt inn á það áðan.

Ég ítreka það sem ég sagði í upphafi að hlutverk sjóðsins er afar mikilvægt sem nokkurs konar akkeri í íbúðalánakerfi landsmanna. Hlutverk stjórnvalda, bæði þings og framkvæmdarvalds, er því að mínu viti að tryggja að svo geti verið áfram.