139. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[15:48]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegi forseti. Við ræðum stjórnlagaráð í annað sinn. Þetta mál er mikilvægt skref í þeirri þrautagöngu Alþingis að endurskoða stjórnarskrá Íslands og erum við komin að ákveðnum vendipunkti eða vörðu í því ferli með umræðu um málið á þessu stigi.

Áherslur Hreyfingarinnar í þessu máli hafa ætíð verið þær að aðkoma þjóðarinnar að nýrri stjórnarskrá eigi að vera sem víðtækust. Við höfum lagt á það áherslu alveg frá því á vordögum árið 2009 þegar við tókum þátt í starfshópi um stjórnlagaþing að slíkt yrði raunin og bentum á marga þá ágalla sem fólust í því að kjósa til stjórnlagaþings. Niðurstaðan varð m.a. sú að í umræðunni um stjórnlagaþingið var ákveðið að skipa sérstaka stjórnlaganefnd og boða til þjóðfundar með slembiúrtaki úr þjóðskrá sem í rauninni var rökréttasta leiðin til að velja fólk á stjórnlagaþing.

Hér er komin fram tillaga til þingsályktunar vegna úrskurðar Hæstaréttar um kosninguna til stjórnlagaþingsins þar sem hún var dæmd ógild. Sú niðurstaða að leggja fram tillögu um stjórnlagaráð er þrautalending í málinu. Hún er ágæt, gengur vel upp þó að málið hefði í sjálfu sér mátt fá farsælli feril. Í tillögunni og ýmsum nefndarálitum eru ákvæði sem ég tel nauðsyn að skerpa á í ræðu minni hvað varðar aðkomu almennings að stjórnarskránni.

Í greinargerð með þingsályktunartillögunni sem var lögð fram segir m.a., með leyfi forseta:

„Við nánari afmörkun og útlistun á verkefnum stjórnlagaráðs er eðlilegt að litið verði til athugasemdar sem fylgdi frumvarpi til laga um stjórnlagaþing sem og til framhaldsnefndarálita allsherjarnefndar um frumvarp til laga um stjórnlagaþing sem fulltrúar allra flokka á Alþingi stóðu að.“

Í nefndaráliti meiri hluta allsherjarnefndar með málinu um stjórnlagaráð, í kaflanum um þjóðaratkvæðagreiðslu, segir m.a., með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn ítrekar þau sjónarmið sem þar koma fram og er það vilji meiri hlutans að taka eins og hægt er tillit til hugmynda sem fram hafa komið um að efnt verði til kosningar um niðurstöður stjórnlagaráðs áður en þær koma til kasta Alþingis. Er þess vænst að stjórnlagaráðið geri tillögu um hvernig haga megi slíkri kosningu, samanber 6. tölulið 2. mgr. tillögunnar. Nauðsynlegt er að skoða mjög vel hvernig best sé að útfæra slíka kosningu þannig að hún nýtist Alþingi sem best við áframhaldandi meðferð málsins. Þannig eiga menn ekki að gefa sér fyrir fram að bera eigi einn kost undir þjóðina, þ.e. að hún yrði beðin um að hafna eða samþykkja tiltekna útfærslu stjórnarskrárinnar. Æskilegt væri að finna leið sem gerði það kleift að bera mismunandi kosti undir þjóðina, t.d. þannig að menn gætu sjálfstætt lýst afstöðu um einstök ákvæði nýrrar stjórnarskrár eða eftir atvikum einstaka kafla hennar. Þannig fengi Alþingi mun gleggri upplýsingar um vilja þjóðarinnar um einstaka þætti í stjórnarskránni en ef kjósendum yrði gert að samþykkja eða hafna öllu sem kæmi frá stjórnlagaráðinu.“

Í framhaldsnefndaráliti um stjórnlagaþingið sem fyrirhugað var á sínum tíma segir einnig m.a. um þjóðaratkvæðagreiðslur, með leyfi forseta:

„Nefndin telur mikilvægt að almenningur fái tækifæri til að segja álit sitt á fyrirhuguðum stjórnarskrárbreytingum áður en þær öðlast gildi. Að mati nefndarinnar koma fjórar leiðir til álita í þeim efnum. Í fyrsta lagi að fram fari ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um niðurstöður stjórnlagaþings og er þá hugsanlegt að kjósendur fái tækifæri til að greiða atkvæði um einstök ákvæði nýrrar stjórnarskrár eða eftir atvikum einstaka kafla hennar. Niðurstöður slíkrar þjóðaratkvæðagreiðslu yrðu þá ráðgefandi fyrir Alþingi við umfjöllun um frumvarp til stjórnarskipunarlaga. Nefndin telur að kostir slíkrar þjóðaratkvæðagreiðslu séu helst þeir að þá fái þjóðin tækifæri til að lýsa afstöðu sinni til einstakra atriða strax á undirbúningsstigi breytinganna og geti þannig hugsanlega haft meiri áhrif en ella á endanlega niðurstöðu um einstök atriði. Nefndin bendir á að gallar þessarar leiðar eru hins vegar fyrst og fremst að atkvæðagreiðslan getur einungis orðið ráðgefandi sem þýðir að óvíst er hvort og þá að hvaða marki alþingismenn telja sér fært að fylgja niðurstöðum slíkrar þjóðaratkvæðagreiðslu. Á þetta ekki síst við í ljósi þess að frumvarp til stjórnarskipunarlaga kann að taka ýmsum breytingum í meðförum Alþingis. “

Á öðrum stað í framhaldsnefndarálitinu segir einnig, með leyfi forseta:

„Nefndin telur mikilvægt að á stjórnlagaþingi verði fjallað um hvaða leið verði farin og tekin afstaða til þess hvaða leið skuli farin og hefur því lagt til breytingu sem hefur verið samþykkt, þ.e. að við upptalningu viðfangsefna stjórnlagaþings í 3. gr., þ.e. 6. tölulið, þar sem mælt er fyrir um lýðræðislega þátttöku almennings, bætist: m.a. um tímasetningu og fyrirkomulag þjóðaratkvæðagreiðslu, þar á meðal um frumvarp til stjórnarskipunarlaga.“

Í framsögu formanns allsherjarnefndar, hv. þm. Róberts Marshalls, með framhaldsnefndarálitinu segir hann m.a., með leyfi forseta:

„Nokkuð var fjallað um aukna aðkomu almennings að ferlinu öllu, þ.e. þegar frumvarpsdrögin lægju fyrir. Það var niðurstaða okkar í allsherjarnefnd að best færi á því að stjórnlagaþingið sjálft mundi kveða upp úr um hvenær atkvæðagreiðsla ætti að fara fram um stjórnarskrárdrögin.“

Vilji allsherjarnefndar til stjórnlagaráðsins og fyrirrennara þess, stjórnlagaþingsins, og hlutverka þess virðist því ljós þó að ákvæðið um þjóðaratkvæðagreiðslu hafi ekki ratað beint inn í texta þingsályktunartillögunnar sem nú er verið að fjalla um. Ég tel það vera miður, en því miður ræð ég ekki öllu á Alþingi, eða sem betur fer. Þannig er einfaldlega staða málsins. Til áherslu á mikilvægi þess að þjóðinni verði tryggð aðkoma að nýrri stjórnarskrá á öllum stigum vinnunnar mun Hreyfingin flytja eftirfarandi breytingartillögu við málið en hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Breytingartillaga við tillögu til þingsályktunar um skipun stjórnlagaráðs. […]

Við tillögugreinina bætist ný málsgrein á eftir 4. mgr. svohljóðandi: Áður en umfjöllun Alþingis um frumvarp til stjórnarskipunarlaga hefst skal fara fram þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs.“

Í greinargerðinni með breytingartillögunni segir:

„Breytingartillaga þessi tryggir aðkomu þjóðarinnar að endanlegu frumvarpi stjórnlagaráðs og að vilji þjóðarinnar sé skýr hvað varðar nýja stjórnarskrá áður en kemur til kasta Alþingis.

Mikilvægt er að þjóðaratkvæðagreiðslan verði þannig útfærð að unnt verði að greiða atkvæði um einstakar greinar frumvarpsins eða samhangandi greinar þess eftir því sem við á sem og fleiri en eina útfærslu af einstökum greinum sem mikið ósamkomulag kann að vera um í stjórnlagaráðinu.“

Frú forseti. Gerð nýrrar stjórnarskrár fyrir lýðveldið Ísland er mikilvægur áfangi í skrefi samfélagsins inn í framtíðina. Það skiptir mjög miklu máli að það verði fleiri en eingöngu alþingismenn sem taka ákvörðun um hvað verður í þeirri stjórnarskrá. Ef almenningur fær ekki tækifæri til að koma að vinnunni á öllum stigum er hætt við að einkaáhugamál alþingismanna og stjórnmálaflokka verði ráðandi í stjórnarskránni fremur en þau atriði sem þjóðin telur að mest brenni á að séu þar inni.

Það er mjög mikilvægt eftir hrunið þegar vantraust á Alþingi er í lágmarki, vantraust á stofnunum samfélagsins er í lágmarki og vantraust á flestöllu í samfélaginu er í lágmarki að Alþingi sjálft og alþingismenn stígi skrefið sem þarf til að efla traust í samfélaginu með því að treysta þjóðinni fyrir því hvað eigi að vera í stjórnarskránni. Þjóðin hefur ekki tekið heimskulegar ákvarðanir í gegnum tíðina. Það er fyrst og fremst Alþingi sem hefur tekið heimskulegar ákvarðanir með lagasetningu. Nú er kominn tími til að alþingismenn treysti þjóðinni. Þeir munu eftir sem áður hafa endanlegt ákvörðunarvald hvað varðar þá stjórnarskrá sem verður borin undir atkvæðagreiðslu. Það er mikilvægt að almenningur fái aðkomu að því máli á öllum stigum. Ég skora á alla þingmenn á Alþingi Íslendinga að taka undir breytingartillögu okkar svo að þingheimi megi verða algerlega ljóst þegar hann fær þetta til umfjöllunar hver vilji þjóðarinnar sé í málinu í heild og í einstökum atriðum þess.