139. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[16:42]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er 100% rétt hjá hv. þm. Pétri Blöndal að ef Ísland gengi í Evrópusambandið gæti sambandið breytt fiskimiðunum í sérsvæði. Og jafnvel þó að það yrði ekki samkvæmt lögum eða samningum er það klárt að það gæti nánast hvenær sem væri á ferlinum breytt og skipað lögunum sér í hag þannig að fiskimiðin mundu hverfa undan forsjá Íslendinga og tilheyra Frökkum, Portúgölum, Englendingum, Spánverjum, Þjóðverjum og fleiri þjóðum. Þá er Ísland ekki lengur sjálfstætt, þá er það hornreka í eigin landi. Þess vegna eigum við enga samleið með Evrópubandalaginu, ekki nokkra. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Það er til skammar að það skuli vera þingmenn á Alþingi Íslendinga sem láta blekkjast af gylliboðum Evrópubandalagsins, það er til háborinnar skammar.

Danir standa, eins og hv. þingmaður benti á, að sumu leyti í dag eins og kaupfélag í Evrópu, sjálfstætt kaupfélag en ekki þjóð. Á tyllidögum fagna þeir drottningu sinni og hennar ætt, (Gripið fram í: Dannebrog.) Dannebrog, skútunni fallegu, en þeir semja um hvað sem er og standa á berangri í samfélagi Evrópubandalagsins. Það fer ekkert á milli mála þó að þeir reyni að halda sjó með eigin krónu.

Virðulegi forseti. Fiskimiðin (Forseti hringir.) eru þættir í auðlindum okkar sem við megum aldrei nokkurn tíma gefa eftir, aldrei.