139. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[17:17]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fór yfir þetta í framsöguræðu minni, með þessa 10 þúsund seðla sem voru ógildir og voru lesnir síðar inn og jafnvel handfærðir. Vegna þessa er enn minna að marka þá niðurstöðu sem um ræðir af því að talningin er svo viðkvæm, hún er svo flöktandi vegna þess að þegar einn, tveir eða þrír aðilar detta út breytist öll röðin.

Það má vel vera að einhver sjái sig knúinn til að fara í mál við ríkisstjórnina, það væri nú eftir því, og mótmæli því sem verið er að leggja til á þeim grunni upplýsinga sem við erum núna með talninguna og líka ef einhverjir dyttu út. En við skulum heldur ekki gleyma því að með þessari þingsályktunartillögu tel ég að ríkisstjórnin sé að firra sig skaðabótaábyrgð því að raunverulega hafði ríkisstjórnin þessa frambjóðendur nánast að fíflum með því að standa svona illa að kosningunum.

Hv. þingmaður spurði að því upphaflega hver bæri ábyrgð á kosningunum. Auðvitað er það hæstv. innanríkisráðherra, að sjálfsögðu, þó að landskjörstjórn hafi verið látin taka pokann sinn, og ríkisstjórnin öll. En hæstv. innanríkisráðherra sýnir manndóm í því að standa ekki að þessari tillögu og ætlar að vera á móti henni. Það er þó betrun.