139. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[17:50]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. En ég vil spyrja hann um það síðasta sem hann sagði, um það að meiri hlutinn ætlaði að keyra þetta í gegn. Nú hefur hann kannski ekki haft tækifæri til að fylgjast með allri umræðunni, en nokkrir hv. þingmenn, stjórnarliðar, hafa komið fram og lýst því yfir að þeir styðji þetta ekki. Ég tel því ekki útséð að meiri hluti hv. þingmanna muni styðja þessa vitleysu, eins og ég vil kalla það, sérstaklega ekki þegar þeir fylgjast með umræðunni og sjá í hvað verið er að stefna. Ég vil því biðja hv. þingmann um að endurskoða þessa skoðun sína og leggja heldur til við þingheim allan, stjórnarliða sem aðra, að þeir láti af stuðningi við þessa þingsályktunartillögu.