139. löggjafarþing — 98. fundur,  23. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[17:53]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hlýddi á ræðu hv. þingmanns og veit að hann er á móti málinu. Það var ekki spurningin, heldur sú uppgjöf sem fólst í þeim orðum hans að hann reiknaði með að málið yrði samþykkt. Nú má vel vera að hv. þingmaður hafi í gegnum tíðina kynnst of miklu af foringja- og flokksræði og kattasmölun og slíku — við höfum séð ansi mikið af því undanfarin tvö ár, fyrir minn smekk allt of mikið. En ég er að vona að heilbrigð skynsemi taki nú yfir hjá hv. þingmönnum, stjórnarliðum sérstaklega, og að þeir láti ekki draga sig í dilka og taki afstöðu til málsins út frá heilbrigðri skynsemi. Mér fannst hv. þingmaður rökstyðja það vel að menn ættu ekki að samþykkja frumvarpið, svo að það liggi nú fyrir. Við megum ekki gefast upp fyrir flokksræðinu, foringjaræðinu og kattasmöluninni. Ég vona að heilbrigð skynsemi sigri.