139. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2011.

launakjör hjá skilanefndum bankanna.

[10:42]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Skilanefndir gömlu bankanna þriggja starfa nú á ábyrgð kröfuhafa. Það er þó hárrétt sem hv. þingmaður nefnir, eftirlit með þeim er lítið og skilvirkt eftirlit ekki neitt. Það er mjög mikilvægt að allir sæti ábyrgð gerða sinna, hvort sem það eru starfsmenn skilanefnda eða aðrir. Það er líka mikilvægt að það sé umgjörð utan um starf slitastjórna þegar kemur að verklagi við meðferð eigna fjármálafyrirtækjanna.

Við eigum mikið undir því sem samfélag að einstaklingar og fyrirtæki sem skulda hinum föllnu bönkum fái sanngjarna úrlausn sinna mála. Það hefur verið mikill misbrestur á því. Við þurfum auðvitað líka að tryggja að ákvarðanir slitastjórna og skilanefnda um eigin viðskipti við þrotabúin séu eðlilegar og að virtar séu þær grundvallarleikreglur sem almennt eiga að tíðkast í viðskiptalífi, að menn semji ekki við sjálfa sig um aðstöðu, kaup eða kjör. Við viljum hins vegar verja það kerfi að kröfuhafar hafi fyrst og fremst forræði yfir þrotabúunum. Það er mjög mikilvægt enda eiga þeir allt undir því að skiptaferlið fari gagnsætt og málefnalega fram.

Við erum með í undirbúningi frumvarp sem við vonumst til að koma inn í þingið fyrir lok mánaðarins þar sem þess er freistað að brúa þetta bil, fella skilanefndir og slitastjórnir undir ákveðið eftirlit en jafnframt auka aðkomu kröfuhafa að því að hafa eftirlit með stórum ákvörðunum (Forseti hringir.) og ráðstöfunum eigna búsins.