139. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2011.

umsóknir um styrki frá ESB.

[10:48]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Það má skipta þessum styrkjum í tvennt, eins og hv. þingmaður sagði sjálf. Það eru annars vegar þessir TAIEX-styrkir og hins vegar IPA-styrkirnir. Þó má segja að TAIEX-styrkirnir svokölluðu sem eru til að byggja upp þekkingu og afla hennar innan lands og utan falli undir IPA-styrkina.

Eins og ég greindi þinginu frá 3. febrúar eru TAIEX-styrkirnir í fullum gangi, í fullri sátt við alla viðkomandi ráðherra. Þeir eru skilgreindir út frá þörfum samningaferlisins og það er aðalsamninganefndin sem skilgreinir hvaða verkefni þarf til að styrkja umsóknina.

Að því er varðar hina styrkina, IPA-styrkina, er mér ekki kunnugt um að búið sé að samþykkja neinn þeirra. Ég tel að það sé fullt sammæli um að viðkomandi ráðherrar muni taka við slíkum styrkjum ef um er að ræða uppbyggingu þekkingar sem fellur undir svið sem tengist EES. Ég gæti nefnt t.d. matvælalöggjöfina sem við höfum gengist undir. Um aðra styrki er það að segja að sumir þeirra, stærsti hlutinn, koma einungis til þegar þjóðin hefur goldið jáyrði með umsókninni, m.a. til að hrinda þá í framkvæmd ákveðnum breytingum á stjórnsýslu sem þarf þá að ráðast í. Áður en það verður er einungis um það að ræða að leggja fram áætlanir, þarfagreiningar o.fl. Ég hef líka greint þinginu frá því. Þessir svokölluðu styrkir sem eru til að styrkja innviði og grunngerð samfélagsins eru sérstakir. Enginn þeirra hefur verið samþykktur enn þá, ekki heldur af Evrópusambandinu, ferlið hefur ekki náð það langt. Viðkomandi fagráðherrar munu þá þurfa að beita sér fyrir slíkum styrkjum og sömuleiðis þarf til að samþykkja þá sérstaklega að fjalla um þá í ráðherranefnd.