139. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2011.

umsóknir um styrki frá ESB.

[10:52]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Það ber stundum við að hv. þingmaður skilur ekki alveg hlutina, a.m.k. ekki réttum skilningi. Eins og ég hef greint þinginu frá og eins og ég hef sagt frá í fjölmiðlum eru TAIEX-styrkirnir þannig að það er samninganefndin sem skilgreinir þarfir samningaferlisins en um styrkina sjálfa er það að segja að það er utanríkisráðuneytið sem kemur þeim bónum á framfæri. Þeir sem vinna í samningunum skilgreina þarfir samningaferlisins.

Að því er varðar aðra styrki sem við getum þá til hægðarauka kallað IPA-styrki er alveg ljóst að þeir þurfa að skilgreinast af viðeigandi ráðuneytum. Það er ekki aðalsamninganefndin sem kemur að því, alls ekki, hvergi. Síðan er farvegurinn sá að þegar búið er að gera það fara þeir í gegnum utanríkisráðuneytið en líka í gegnum síu á milli þar sem ráðherranefndin er og sömuleiðis þurfa (Forseti hringir.) viðkomandi umsóknir að uppfylla forsendur sem Evrópusambandið sjálft setur gagnvart öllum umsóknarlöndum. Þau eiga öll kost á þessu.