139. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2011.

fjöldi afgreiddra umsókna um ríkisborgararétt.

[10:54]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. innanríkisráðherra um fjölda þeirra einstaklinga sem hafa fengið íslenskan ríkisborgararétt undanfarin tvö ár. Það kom fram í tölum sem Hagstofan birti um innflytjendur á Íslandi í ársbyrjun að í fyrra fengu 450 einstaklingar íslenskan ríkisborgararétt en 728 manns árið 2009. Það fylgdi sögunni að ekki hefðu færri einstaklingar fengið íslenskan ríkisborgararétt á einu ári síðan árið 2002. Árið 1991 fengu fleiri karlar en konur íslenskt ríkisfang en allar götur síðan hafa konur verið í meiri hluta nýrra íslenskra ríkisborgara. Svo var og í fyrra þegar 265 konur fengu íslenskan ríkisborgararétt en 185 karlar.

Þetta er tæplega 40% fækkun á milli ára og spurningin sem sækir að manni er sú hvort þetta sé vegna þess hve miklu færri hafa sótt um ríkisborgararétt árið 2010 en 2009 eða hvort skýringin sé sú að fleiri umsóknum sé hugsanlega synjað. Mig langar að beina þeirri fyrirspurn til ráðherrans hvort hann geti skýrt þetta fyrir þinginu.