139. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2011.

aðildarumsókn Íslands að ESB.

[10:57]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Það þarf svo sem ekki að rifja það upp fyrir þingheimi og þjóðinni að á síðustu dögum hafa hv. þm. Atli Gíslason og Lilja Mósesdóttir tilkynnt um úrsögn sína úr þingflokki Vinstri grænna. Þeirri úrsögn fylgdu þau eftir með yfirlýsingum og héldu blaðamannafund þar sem margt athyglisvert kom fram, þar á meðal lýsingar hv. þm. Atla Gíslasonar á því með hvaða hætti hæstv. utanríkisráðherra hefur gengið fram gagnvart hæstv. sjávarútvegsráðherra í tengslum við aðildarumsókn Íslands að ESB. Þær lýsingar verða ekki skildar öðruvísi en svo að hæstv. utanríkisráðherra hafi tekið býsna gróflega fram fyrir hendurnar á hæstv. sjávarútvegsráðherra Jóni Bjarnasyni. Skýrslum hæstv. ráðherra virðist hafa verið stungið undir stól eða svörum breytt, skilyrði fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu breytt í tilmæli o.s.frv.

Hv. þm. Atli Gíslason lýsti því yfir að hæstv. sjávarútvegsráðherra hefði verið aftengdur af hæstv. utanríkisráðherra í Evrópumálinu (Utanrrh.: Jarðtengdur.) og að yfirlýsingar hæstv. frammíkallanda hefðu verið kornið sem fyllti mælinn sem leiddi til þess að hv. þingmaður sagði sig úr þingflokki Vinstri grænna.

Nú er full ástæða finnst mér til að spyrja hæstv. sjávarútvegsráðherra hvort þessi lýsing hv. þm. Atla Gíslasonar á atburðarásinni og framgöngu hæstv. ráðherra Össurar Skarphéðinssonar sé rétt. Ef svo er er ástæða til að spyrja um framhald þessa máls. Hvernig ætlar hæstv. sjávarútvegsráðherra að bregðast við þessum yfirgangi? Telur hann að sér sé yfir höfuð sætt í ríkisstjórn þar sem gengið er fram gagnvart honum með þessum hætti? Mér þætti reyndar ósanngjarnt gagnvart hæstv. sjávarútvegsráðherra að hann þyrfti að víkja úr ríkisstjórn fyrir það að fylgja stefnu Vinstri grænna (Forseti hringir.) og gæta hagsmuna þeirrar atvinnugreinar sem hann er í forsvari fyrir. (Forseti hringir.) En sé lýsingin rétt er líka ástæða til að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann (Forseti hringir.) beri traust til hæstv. utanríkisráðherra.