139. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2011.

aðildarumsókn Íslands að ESB.

[10:59]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Forsaga Evrópusambandsumsóknarinnar sem samþykkt var á Alþingi er öllum kunn. Afstaða mín í því máli bæði við myndun ríkisstjórnar og eins afgreiðslu þess máls á þingi var í fullkomnu samræmi bæði við stefnu mína og skoðun og einnig stefnu míns flokks. Ég hafði enn fremur gert grein fyrir því fyrir fram þannig að það hefur aldrei farið á milli mála.

Umsóknin er send í ljósi þess að Alþingi samþykkti hana með þeim meiri hluta sem var, en jafnframt eru flokkarnir Vinstri hreyfingin – grænt framboð og Samfylkingin með gjörólíka stefnu í málinu. Á þeim forsendum er umsóknin send og hún er ekki send að mínu mati til að komast inn í Evrópusambandið heldur eins og Alþingi samþykkti til að athuga hvar gætu legið þau mörk sem þá hugsanlega strandaði á, eða ekki strandaði á, um þá meginhagsmuni sem lúta að hagsmunum Íslendinga, ekki hvað síst í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum eins og hv. þingmaður kom inn á.

Mér er alveg fullkomlega ljós og öllum er ljós eindregin afstaða utanríkisráðherra í þessum efnum, hann vill að við förum í Evrópusambandið. Mín afstaða er jafnklár, ég vil að við förum ekki þangað, þannig að milli okkar er bara það að ég virði hans stefnu og hans skoðanir í þeim efnum jafnframt því sem ég tel mikilvægt og treysti því að (Gripið fram í.) hann virði mínar skoðanir. (Gripið fram í: Það mun aldrei gerast.) Vinnan núna er á þessu rýnivinnustigi, þ.e. það er verið að bera saman lög og reglur Evrópusambandsins annars vegar og Íslendinga hins vegar. Ég hef talið að í samningum ættu aðilar að vera jafngildir í þeim efnum og við ættum að bera lögin saman á þeim jafnréttisgrundvelli. Það var samt ekki þannig sem Alþingi samþykkti málið. (Forseti hringir.) (Gripið fram í.)

Frú forseti. Ég kem þá frekar að þessu sem mér er afar kært að fjalla um (Forseti hringir.) í seinni svarræðu minni.