139. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[11:09]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Þegar Hæstiréttur Íslands úrskurðaði kosningu til stjórnlagaþings ógilda gagnrýndi ég þá ákvörðun, þá niðurstöðu réttarins mjög harðlega. Við það barði formaður Sjálfstæðisflokksins fastar í borðið í þingsal en ég hef áður orðið vitni að, ekki af hneykslan yfir Hæstarétti heldur orðum mínum. Ég stend við orð mín og tel úrskurð Hæstaréttar, að ógilda lýðræðislega kosningu á formgalla, einhvern versta atburð síðan hrunið varð og óaðskiljanlegan hluta af hruninu sjálfu. Ég sagði jafnframt að ég mundi hlíta niðurstöðu Hæstaréttar til hins ýtrasta og ekki sætta mig við neina hjáleið í þeim efnum. Ég tel að með því að samþykkja þetta þingmál sé verið að fara á bak við Hæstarétt. Það er jafnframt hluti af hrunpólitíkinni. (Forseti hringir.) Ég segi mig frá þeirri pólitík með því að sitja hjá við þessa atkvæðagreiðslu.