139. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[11:17]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég hef gert grein fyrir því hvers vegna mér er ekki fært að styðja það þingmannamál sem hér liggur fyrir. Þegar settar eru grundvallarleikreglur er mikilvægt að menn gæti við það að grundvallarleikreglum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Það er ótækt fordæmi að naumur pólitískur meiri hluti á Alþingi ógildi úrskurði dómstóla með því að setja lög eins og að engir dómar hafi fallið. Ég get ekki tekið þátt í slíkum vinnubrögðum og held að það hefði verið farsælla fyrir þingið og þjóðina alla að reyna að ná betri samstöðu og vanda betur til þess leiðangurs sem hér er farið í. Sannarlega þurfum við á því að halda að endurskoða stjórnarskrána og þessi afstaða felur ekki í sér neina rýrð á þá glæsilegu fulltrúa sem kjörnir voru því miður ógildri kosningu til stjórnlagaþings og eru alls góðs maklegir.