139. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[11:18]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það eru augljóslega skiptar skoðanir um þá leið sem hér á að fara og ekkert í sjálfu sér óeðlilegt við það. Ég get hins vegar ekki með nokkru móti fellt mig við að þessi leið verði farin, í fyrsta lagi vegna þess að að mínu viti er gengið þvert á það sem Hæstiréttur úrskurðaði og við það get ég ekki sætt mig. Kosningin mistókst, þ.e. ferlið og sú aðferðafræði sem var viðhöfð. Við eigum að læra af þessu.

Mér finnst Alþingi ekki bregðast rétt við þeim ábendingum sem fram hafa komið eftir hrunið með því að fara þessa leið. Ég get ekki fellt mig við það og mun ekki lúta þeim tillögum sem koma út úr því starfi sem þetta stjórnlagaráð mun skila frá sér. Ég ætla ekki að taka mark á því vegna þess að ég get ekki fellt mig við að þessi leið verði farin.

Ég mun greiða atkvæði gegn öllum þeim breytingartillögum sem hér koma fram um þetta mál sem og gegn málinu sjálfu.