139. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[11:25]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Ég styð þetta mál og ætla ekki að sitja hljóður undir ásökunum um að með því sýni ég þrískiptingu ríkisvaldsins vanvirðingu eða fari á svig við ákvörðun Hæstaréttar. Ég tel að við höfum borið fulla virðingu fyrir ákvörðun sex hæstaréttardómara í þessu máli. Þeir sem kjörnir voru á stjórnlagaþing fá ekki kjörbréf og við höfum ekki blásið til stjórnlagaþings enn þá út af þessari ákvörðun Hæstaréttar. Í ákvörðun Hæstaréttar fólst hins vegar ekkert fleira en það að kosningin var gerð ógild. Ekki var sýnt fram á kosningasvindl. Engin leiðsögn felst í ákvörðun Hæstaréttar um það hvað á að gera næst. (Gripið fram í.) Það er okkar hér að ákveða hvað á að gera næst. Það vekur tortryggni mína að einkum þeir sem vilja hætta við stjórnlagaþing tala um að við þurfum að bera einhverja umframvirðingu fyrir ákvörðun (Forseti hringir.) Hæstaréttar. [Kliður í þingsal.] Það eru þeir sem vilja hætta við stjórnlagaþing (Forseti hringir.) sem tala um að við eigum að bera umframvirðingu (Forseti hringir.) fyrir ákvörðun Hæstaréttar og það vekur tortryggni mína. Þetta (Forseti hringir.) er bara klassísk deila.