139. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[11:32]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Stjórnarskrá er til þess ætluð að skrá þær grundvallarreglur sem samstaða er um í samfélaginu. Það felur því beinlínis í sér þversögn að ætla að vinna að gerð stjórnarskrár í fullkomnum ágreiningi. Auk þess að lýsa þeim grundvallarreglum sem samstaða er um í samfélaginu á stjórnarskrá að vera óvefengjanleg. Það er því fólgin í því þversögn að vinna að gerð stjórnarskrár með aðferðum sem eru verulegum vafa undirorpnar eða fara beinlínis á svig við gildandi stjórnarskrá.

Oft hefur verið nefnt að markmið þessarar vinnu sé fyrst og fremst það að vinna að aukinni og bættri þrískiptingu ríkisvalds en hér er hugmyndin sú að breyta stjórnarskránni samkvæmt ráðgjöf nefndar sem löggjafarvaldið bjó til að ósk framkvæmdarvaldsins til að grípa inn í dómsvaldið. Það væri ekki hægt að skálda þennan farsa, frú forseti.