139. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[11:33]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Það voru vissulega mikil vonbrigði þegar Hæstiréttur ógilti stjórnlagaþingskosninguna fyrr í vetur og upp kom þröng staða sem erfitt var að vinna úr, sérstaklega þegar ljóst var að það voru miklar deilur um hvort almennt skyldi farið í endurskoðun stjórnarskrárinnar með þessum hætti. Hins vegar er skýr meirihlutavilji fyrir því á Alþingi að tryggja að endurskoðun stjórnarskrárinnar fari fram með besta mögulega hætti sem í stöðunni er. Ég styð það heils hugar að sú leið sem meiri hluti allsherjarnefndar náði samstöðu um verði farin. Ég fagna því mjög að skipan stjórnlagaráðs fari fram á Alþingi í dag og að endurskoðun á stjórnarskránni fari fram með þessum hætti þó að Hæstiréttur hafi ógilt kosninguna á dögunum. Alþingi hefur að sjálfsögðu fullar og óskoraðar heimildir til að fara þessa leið.

Auðvitað hefði verið gott ef við hefðum getað náð saman um að fjölga fulltrúum landsbyggðarinnar en það voru vonbrigði í kosningunum sjálfum. En þetta er niðurstaðan, (Forseti hringir.) um þetta náðist samstaða í meiri hluta nefndarinnar. Henni fagna ég, hana styð ég heils hugar og segi já við henni.