139. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[11:48]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (ber af sér sakir):

Frú forseti. Ég get ekki annað en komið hér upp og mótmælt því harðlega að í orðum mínum hafi komið fram eðlislæg fyrirlitning á þjóðarviljanum, eins og hv. þm. Þór Saari orðaði það. (Gripið fram í: Þjóðviljanum.) (Gripið fram í.) [Hlátur í þingsal.]

Eins og atkvæðagreiðslutaflan ber með sér er verið að koma á fót stjórnlagaráði með 31 atkvæði frá Alþingi og það mun komast að niðurstöðu fyrir sitt leyti. Þeir 25 sem þar munu sitja munu fyrir sitt leyti komast að niðurstöðu um hvaða breytingar eigi að gera á stjórnarskránni. Ég sé engan tilgang í því að senda slíka niðurstöðu í þjóðaratkvæðagreiðslu enda hef ég margoft spurt, þar á meðal hv. þingmann, hvað eigi að koma út úr því. Hann vill að greidd verði atkvæði um hverja og eina grein sem gæti þýtt að við fengjum hingað inn frumvarp sem væri 1. gr., 3. gr., 9. gr., 13. gr. (Forseti hringir.) o.s.frv., allt eftir því hvað hefði fengist samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Þetta er allt saman tóm vitleysa og ég frábið mér svona (Forseti hringir.) stóryrði eins og hv. þingmaður hafði uppi áðan.