139. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[11:55]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Það er von að þjóðin hristi öðru hvoru höfuðið yfir því sem hér fer fram. Það er afar misráðið, ef ekki hreint óráð, að sniðganga Hæstarétt, að sniðganga grundvallarleikreglur í samfélaginu.

Þegar rétt rúmlega einn þriðji þjóðarinnar tekur þátt í kosningu og innan við helmingur þingsins treystir sér síðan til að skipa þann hóp í stjórnlagaráð hlýtur eitthvað að vera að. Ég hef stutt stjórnlagaþing kosið af þjóðinni þar sem saman kæmi eðlileg dreifing fólks alls staðar að af landinu úr ólíkum þjóðfélagshópum sem kæmi í þá glæsilegu hugmynd að skapa hér nýja stjórnarskrá, ekki vegna þess að stjórnarskráin hefði valdið hruninu heldur vegna þess að það er einn liður í því að skapa nýtt Ísland. Þetta er óráð, þetta er ekki rétta leiðin og ég segi nei.