139. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[12:06]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Það hefur verið skýrt viðhorf okkar í Sjálfstæðisflokknum að við viljum standa að endurskoðun stjórnarskrárinnar, það sé orðið tímabært að taka kafla stjórnarskrárinnar til endurskoðunar. Við höfum þó verið þeirrar skoðunar að menn séu á villigötum sem telja að stjórnarskráin hafi með einhverjum hætti verið rót þess vanda sem við erum að glíma við í efnahagsmálum.

Við teljum hins vegar að sú aðferð sem hér er notuð við að undirbúa breytingar á stjórnarskránni sé óþarfi og reyndar er tillagan orðin alger óskapnaður eins og hún liggur núna fyrir þinginu. Þetta er enn eitt dæmið um grundvallarmál þar sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur mistekst að skapa sátt í þinginu og skeytir engu um það að flokkar þvert á allar línur komi saman að lausn stórra viðfangsefna. Fiskveiðistjórnardæmið er annað dæmi sem mætti nefna.

Þrátt fyrir andstöðu við aðferðafræðina er enn full alvara á bak við vilja okkar til að standa að endurskoðun stjórnarskrárinnar og þess vegna vonast ég til þess að þessi aðferð, sem er í andstöðu við okkar vilja, muni skila einhverjum árangri sem hægt er að vinna með. Ég segi nei.