139. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2011.

úrskurður kærunefndar jafnréttismála, nr. 3/2010, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[12:54]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Ég verð að viðurkenna að mér líður eins og ég sé föst í sápuóperu sem hefur gengið í nokkur ár, handritshöfundarnir eru orðnir uppiskroppa með góðan söguþráð og farnir að bjóða upp á endurtekið efni en hafa víxlað persónum og leikendum.

Það er alltaf vont þegar ráðherrar fá einn á kjammann frá kærunefndum en það hlýtur að vera sérstaklega vandræðalegt fyrir þann ráðherra sem hefur kannski beitt sér mest og best fyrir auknu jafnrétti kynjanna og annarra í samfélaginu. Ég hef verið að kynna mér gögn málsins, úrskurðinn, yfirlýsingu frá forsætisráðuneytinu, greinargerð mannauðsráðgjafans sem ráðlagði ráðuneytinu í ráðningarferlinu og ýmislegt úr fjölmiðlum. Ég sé að mannaráðningar eru háþróuð vísindagrein sem til þessa hefur greinilega farið að mestu fram hjá mér. Ég hef hins vegar nokkrum sinnum þurft að ráða starfsmann og til þess hef ég bara notað brjóstvitið og farið eftir einhverri tilfinningu sem ég hef haft í maganum. Það hefur reynst mér vel þótt það dygði væntanlega ekki í Stjórnarráðinu.

Ef ég hefði verið í sporum forsætisráðherra hefði brjóstvitið þó sagt mér að ráða ekki flokkssystur mína. Það yrði af flestum túlkað sem pólitísk spilling. Ég er jafnréttissinni en ég vil leyfa mér að benda á að jafnréttishugtakið er gallað innan ramma laganna þegar það tekur bara til karla og kvenna. Það hallar mun meira á ýmsa aðra hópa í samfélaginu en konur nú á 21. öldinni.

Mér sýnist sem báðir umsækjendur séu afar hæfir, þau eru með ferilskrár sem gætu átt við 100 ára manneskjur. En aftur og aftur upplifum við að umræða um viðkvæm mál leitar ofan í skotgrafir og þær skotgrafir eru mun dýpri en virðist við fyrstu sýn. Það verður að aukaatriði hvað gerðist í raun og veru í þessu máli en aðalatriðið hvað einhver sagði við einhvern einhvern tímann við svipaðar kringumstæður. Það kann ekki góðri lukku að stýra.