139. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2011.

úrskurður kærunefndar jafnréttismála, nr. 3/2010, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[13:05]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Forseti. Það er hvorki sanngjarnt, sannfærandi né trúverðugt að bera það á hæstv. núverandi forsætisráðherra að þau sjónarmið hafi ráðið ferðinni að ráða frekar karl en konu í umrætt starf. (Gripið fram í.) Það held ég að verði ekki hægt að fullyrða um núverandi hæstv. forsætisráðherra sem er, eins og hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sagði réttilega, til margra ára og áratuga einn ötulasti baráttumaður fyrir jafnri stöðu karla og kvenna í þessu samfélagi og margra annarra hópa. Þetta finnst mér mikilvægt að komi fram í upphafi af minni hálfu. (Gripið fram í.)

Þetta er ekki sagt til að reyna að draga úr þeirri ábyrgð sem ráðherra ber á stjórnsýslunni í sínu eigin ráðuneyti. Það hljóta ráðherrar að gera og hljóta að mæta úrskurði eins og þeim sem hér liggur fyrir frá úrskurðarnefnd kærunefndar jafnréttismála með viðeigandi hætti. (Gripið fram í.)

Ég vil segja það að eftir að hafa farið yfir úrskurð kærunefndarinnar, gögn málsins frá forsætisráðuneytinu og annað þessu tengt er ég sammála þeim sem hér hafa sagt að ráðherra hafi vissulega verið vandi á höndum þegar niðurstaða ráðgjafa í mannauðs- og ráðningarmálum var með þeim hætti sem hún var. En hún er auðvitað ekki hafin yfir gagnrýni heldur, að sjálfsögðu ekki. Þá er spurningin þessi: Erum við með þessi ráðningarmál í réttum farvegi yfirleitt?

Það má benda á að umboðsmaður Alþingis hefur komist að þeirri niðurstöðu, t.d. í háttsettu ráðningarmáli í Stjórnarráðinu, að það séu gild rök að taka tillit til viðtala sem hluta af rökum fyrir því hver ráðinn er í viðkomandi starf. Það virðist fara á skjön við það sem úrskurðarnefnd kærunefndarinnar segir í sínum úrskurði. Þetta er atriði sem við þurfum að huga að.

Ég vek sérstaklega athygli á því að ég tel og hef lengi talið að þessi ráðningarmál í Stjórnarráðinu og æðstu embættismanna séu ekki í góðum farvegi. Ég hef ítrekað, m.a. á þessu þingi, flutt tillögu til þingsályktunar um mótun reglna um verkferla og hæfnismat við opinberar embættisveitingar þar sem ég færi rök fyrir því að embættisveitingar af þessu tagi eigi að vera í höndum — fyrst faglegt mat hjá hæfnisnefndum og síðan jafnvel að ræða það hvort embættismannaráðningar eigi yfirleitt að vera í höndum ráðherra eða hugsanlega sérstakrar ráðningarnefndar. Ég tel að það eigi að styrkja hina pólitísku stjórnsýslu í ráðuneytum með því að í kringum hvern ráðherra sé starfseining sem kemur og fer með ráðherrum en að aðrar ráðningar embættismanna og annarra starfsmanna séu ekki í höndum ráðherranna sjálfra. Ég held að mýmörg dæmi í gegnum árin sýni fram á það að það er ekki klókt að ráðherrarnir taki slíkar ákvarðanir. Ég er þeirrar skoðunar, ég hef flutt um þetta þingmál og það hefur verið mælt fyrir því á þessu þingi. Það er til meðferðar í hv. allsherjarnefnd og ég vonast til þess að það hljóti hljómgrunn og fái þar framgang.

Ég tel sem sagt að þarna þurfi að greina miklu betur á milli þess hvað eru pólitísk störf í stjórnsýslunni — því að þau eiga að vera til staðar, um það hljótum við öll að vera sammála — og hver eru fagleg og embættisleg. Þarna þarf að skilja á milli með miklu skýrari hætti en við höfum gert í dag og ég tel að þetta mál eigi að vera okkur fyrst og fremst (Forseti hringir.) veganesti í vinnu að endurbótum á þessu kerfi öllu saman í heild.