139. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2011.

hagvöxtur og kjarasamningar.

[14:02]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir að þetta mál komist hér á dagskrá í önnum þingsins. Þannig er mál með vexti, eins og allir vita, að kjarasamningar eru opnir og aðilar vinnumarkaðarins hafa svo vikum skiptir reynt að ná saman um grundvöll nýrra kjarasamninga og þar er verið að reyna að horfa til þriggja ára. Það er rétt að halda því til haga strax í upphafi þessarar umræðu hversu miklu máli það skiptir að góð samstaða virðist vera um það meðal aðila vinnumarkaðarins að gera langtímasamninga og raunhæfa samninga. Allt frá árinu 2009 hefur það staðið upp á ríkisstjórnina að styðja við þetta ferli með aðgerðum og með úrræðum sem auka bjartsýni manna á að hjól atvinnulífsins komist aftur af stað þannig að réttur grundvöllur fyrir launahækkunum sé myndaður.

Stóra myndin er þessi: Í hruninu töpuðust rúmlega 20.000 störf. Það var mikið áfall fyrir ríkissjóð á tekjuhliðinni og atvinnuleysi rauk að sjálfsögðu upp. Verkefnið er því að vinna að sköpun nýrra starfa. Hagvöxtur er einhver besti mælikvarðinn sem við höfum á sköpun nýrra starfa. Með þeirri hagvaxtarspá sem nú blasir við okkur, síðast þeirri sem ASÍ sendi frá sér í dag, er ljóst að fram undan eru hagvaxtarár sem rétt svo tryggja að haldið verði í horfinu, þ.e. það er engan kjarabata að fá eins og útlitið er í efnahagsmálunum. Minni háttar breytingar verða á atvinnuleysi. Það mun verða svona um það bil það sama og við erum að glíma við í dag. Það eru engar forsendur fyrir aðila vinnumarkaðarins til að semja um launahækkanir. Það eru með öðrum orðum við þær aðstæður sem hér hafa verið skapaðar engar forsendur fyrir venjulegt launafólk að gera ráð fyrir nokkrum einasta kjarabata næstu árin ef þær hagvaxtarspár sem nú liggja á borðinu ganga eftir.

Ef við skoðum það sem síðast kom út frá hagdeild ASÍ er gert ráð fyrir 2,5% hagvexti á árinu sem nú er að líða, 2,1% á næsta ári og 2,3% á árinu þar á eftir. Þessar tölur, ef þær ganga eftir, þýða hreinlega algera stöðnun. Sá vöxtur í sköpun nýrra starfa sem þessar tölur bera með sér duga varla til þess að taka við nýju fólki inn á vinnumarkaðinn, nýjum kynslóðum sem eru að útskrifast úr skólunum, hvað þá að fara að vinna á atvinnuleysinu. Það er því afar dökk mynd sem dregin er upp í þessum spám, í þessari spá og þeim öðrum sem við höfum haft hér til úrvinnslu.

Hvað er það sem aðilar vinnumarkaðarins eru að fara fram á af ríkisstjórninni? Þeir vilja í fyrsta lagi að hér verði skapað betra umhverfi fyrir fjárfestingar. Það dylst engum sem fylgst hefur með störfum þessarar ríkisstjórnar að hún hefur í hverju málinu á fætur öðru staðið í vegi fyrir því að fjárfesting kæmist inn í landið. Horfum bara á orkugeirann sem er augljósasta dæmið. Yfirlýsingar um nýja skatta, að taka upp gamla fjárfestingarsamninga, að þjóðnýta þá fjárfestingu sem þegar er komin inn og margítrekað er búið að komast að niðurstöðu um að hefur gerst með löglegum hætti — þetta dregur úr vilja manna til að koma inn með nýja fjárfestingu.

Það er auðvitað fleira sem kemur hér til. Hugmyndir ríkisstjórnarinnar um breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu hafa verið eins og dimmt ský yfir öllum efnahagsmálum frá því ríkisstjórnin var mynduð, frá því að í stjórnarsáttmálann var komið því ákvæði að gjörbylta ætti fiskveiðistjórnarkerfinu. Það eru hræðileg örlög fyrir þá atvinnugrein að búa við fullkomna óvissu um framtíð sína. Hver er afleiðingin? Afleiðingin er sú að stórkostlega hefur dregið úr fjárfestingu í þeirri atvinnugrein.

Við heyrum frá innlendum þjónustuaðilum sem áður fyrr, fyrir nokkrum árum, höfðu um það bil 80% af veltu sinni af viðskiptum við sjávarútveginn á Íslandi, það hlutfall er nú komið niður í 20% og samdrátturinn og uppsagnirnar sem því fylgja. Það er augljóst að stefna ríkisstjórnarinnar í sjávarútvegsmálum, sú óvissa sem viðhaldið hefur verið hér frá því að ríkisstjórnin var mynduð, hefur orðið til gríðarlegs skaða fyrir hagkerfið allt.

Í þriðja lagi hafa menn að sjálfsögðu kvartað undan aðferðafræðinni við niðurskurð, en við höfum ekki verið í hópi þeirra sem hafa gagnrýnt umfang niðurskurðar í ríkisfjármálum. En hvað er ASÍ að segja í nýjustu spá sinni? Með þessum hagvaxtartölum mun þurfa 50 milljarða niðurskurð til viðbótar strax í haust fyrir næsta ár. Það blasir við að mati ASÍ 50 milljarða niðurskurður til viðbótar við það sem við höfum hingað til tekist á við, hin eiginlegu hrunfjárlög, eins og hæstv. fjármálaráðherra orðaði það á síðastliðnu haustþingi. Það verða sannkölluð hrunfjárlög hæstv. ráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms Jóhanns Sigfússonar ef það gengur eftir, ef þessi dimma spá ASÍ gengur eftir.

Við höfum lagt til aðra leið vegna þess að við trúum því að þetta verkefni sé vel leysanlegt. Við trúum því og erum þar í liði með aðilum vinnumarkaðarins sem hafa talað fyrir markvissum aðgerðum til þess að koma af stað fjárfestingu, sköpun nýrra starfa og vexti kaupmáttar allt frá árinu 2009. Það plan sem þá var lagt upp með hefur ekki gengið eftir, því miður. Það hefur leitt til þess að fjárfesting á árinu 2011, á líðandi ári, er um það bil 150 milljörðum minni en að var stefnt. Ef ráðist hefði verið í þær aðgerðir sem skrifað var undir af aðilum vinnumarkaðarins og ríkisstjórninni með stöðugleikasáttmálanum og ef farið hefði verið eftir minnisblaði um verklegar framkvæmdir frá því í júní 2009 var því spáð að fjárfesting væri um það bil 150 milljörðum, einhvers staðar í kringum 350 milljarðar sem sagt, hærri en hún er í dag. Þannig að þetta er hægt. Það sem þarf að gera er að það þarf að beita hvötum. Það þarf að eyða óvissu og beita hvötum.

Nýjustu fréttir af framgangi úrvinnslu skuldamála hjá fyrirtækjunum eru enn eitt dæmið um mál sem hefur klúðrast í höndum ríkisstjórnarinnar. Fyrir jól var talað um það að 6.000–7.000 fyrirtæki mundu fara á beinu brautina. Því var síðan fljótlega breytt með einhverjum breyttum skilgreiningum yfir í nokkur hundruð fyrirtæki, en jafnvel sú lægri tala er ekki að ganga eftir. Vissulega er það ekki þannig að það hafi átt að vinnast í ráðuneytunum. En ráðuneytin eru þau sem hafa svipuna á fjármálakerfið, geta sett þeim skilyrði og krafist hraðrar úrlausnar brýnna mála. Þannig að úrræðin eru næg fyrir ríkisstjórnina til þess að koma súrefni til atvinnulífsins, til þess að tryggja raunhæfan grundvöll fyrir kauphækkanir fyrir fólkið í landinu.

Nýjasta dæmið frá okkur sjálfstæðismönnum í þeim efnum er að lækka álögur á eldsneyti og við munum koma fram með frumvarp um það til að koma súrefni til heimilanna í landinu. Ríkisstjórnin situr aðgerðalaus. (Forseti hringir.) Hagvaxtarspárnar sýna að óveðursskýin hrannast upp. Þetta er að grafa undan (Forseti hringir.) forsendu þess að hér verði hægt að gera mikilvæga raunhæfa kjarasamninga til næstu þriggja ára. Nú stendur upp á ríkisstjórnina að svara því skýrt til hvaða aðgerða (Forseti hringir.) verði gripið, því ella verður hún hreinlega að víkja.