139. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2011.

hagvöxtur og kjarasamningar.

[14:24]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Þær eru uppörvandi, ræður leiðtoga stjórnarandstöðunnar hér. Ég fæ ekki skilið hvernig hv. þm. (Gripið fram í.) Bjarni Benediktsson getur lesið nýútkomna hagspá Alþýðusambands Íslands eins og hann gerir. Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst gott að í aðalatriðum staðfestir nýjasta hagspáin sem við höfum frá einhverjum ábyrgum aðila að horfurnar séu þær að hér sé orðinn umsnúningur í hagkerfinu. Það verður hagvöxtur upp á 2,5–3% á þessu ári. Út af tölum um að það þurfi að skera niður um 50 milljarða til að ná jákvæðum frumjöfnuði á þessu ári verð ég að biðja hv. þingmenn aðeins að staldra við. Hvernig getur staðið á því að það þurfi að skera niður um 50 milljarða til að ná jákvæðum frumjöfnuði á árinu 2011 þegar fjárlögin byggja á jákvæðum frumjöfnuð? Hann er kominn. (Gripið fram í: Og 3,5% hagvöxtur.) ASÍ hlýtur þarna að vera að vísa til þess niðurskurðar sem orðinn er til þess að ná jákvæðum frumjöfnuði. (Gripið fram í.) Heildarhallinn samkvæmt fjárlögunum er 37 milljarðar.

Herra forseti. Hvernig getur þurft að skera niður um 50 milljarða til að ná jákvæðum frumjöfnuði þegar heildarjöfnuðurinn er ekki neikvæður nema um 37 milljarða? Þetta er algerlega út í hött og menn hafa bara ekki tilfinningu fyrir stærðum í fjárlögunum eða öðrum slíkum hlutum ef þeir átta sig ekki á þessu. Það er bara þannig. Það er ekkert sem bendir til þess að þessi áætlun sé að fara út af sporinu.

Tölur fyrstu mánaða ársins staðfesta tölur fyrir janúar. Bráðabirgðatölur sem ég hef séð fyrir febrúar benda ekki til þess að það sé frávik í tekjuáætlun og útgjaldaáætlun ríkissjóðs nema í jákvæða átt, þ.e. að horfurnar séu heldur betri. Það vísar líka til þess að sennilega hefur árið 2010 verið skárra en bráðabirgða- eða samtímamælingar Hagstofunnar bentu til. Ég ætla að gerast sá spámaður að leyfa mér að trúa því. Það byggir ekki á miklum rannsóknum eða vísindum, kannski aðallega tilfinningum míns stóra nefs, en það hefur stundum reynst hafa rétt fyrir sér, þetta nef. Ég spái því að árið 2010 eigi ekki eftir að reynast eins slæmt þegar það verður betur upp gert.

Það hefur náðst gríðarlegur árangur í að takast á við ríkisfjármálin, innleiða hér stöðugleika, lækka vexti og verðbólgu. Svo er talað eins og það skipti engu máli og sé sjálfsagður hlutur. Skuldir ríkissjóðs verða í lok þessa árs, gangi allt sæmilega eftir á þessu ári, 115 milljörðum kr. minni en áætlunin gerði ráð fyrir að þær yrðu á fyrri hluta árs 2009. Það munar um minna en 115 milljörðum kr. betri stöðu með tilsvarandi lægri vaxtakostnaði. Það þýðir líka að svigrúm ríkisins vex og við getum látið eftir okkur að beita ríkinu og afli þess með öðrum hætti, þar á meðal kannski til hvetjandi aðgerða.

Það að ná tökum á ríkisfjármálunum, að þau verði ekki ósjálfbær, skiptir sköpum fyrir framtíðarhagvöxt. Ef ríkið og hið opinbera missir skuldirnar of ofarlega og vaxtakostnaðurinn verður of mikill og viðvarandi inn í framtíðina sem ósjálfbær staða býður upp á leggja umsvif ríkisins í launagreiðslum og fjárfestingum á komandi árum ekki sitt af mörkum til hagvaxtar. Það sjá allir menn. Allar rannsóknir á öllum kreppum hafa sýnt að það skiptir miklu máli að ná sem fyrst tökum á þessu þannig að það verði ekki ósjálfbært og til þess að geta síðan þá beitt ríkisfjármálunum til að örva eftirspurn, en það getum við ekki nema skuldastaðan sé sjálfbær.

Fjölmörg verkefni og fjárfestingar eru fram undan sem ég tel líka að hafi verið vanmetin fram að þessu í spám. Hvað gerir ASÍ? Það hækkar spá sína um fjárfestingar og telur að þær muni aukast um 18% í ár en ekki 15% eins og eldri spá gerði ráð fyrir. Allt sem mundi bætast við á þessu ári verður þá í plús, öll verkefni sem við kunnum að landa samningum um.

Ég er sannfærður um að fjárfestingin í ferðaþjónustunni er verulega vanmetin. Það er verið að endurbyggja eða byggja ein þrjú til fimm hótel. Það er spáð 15% auknum umsvifum í ferðaþjónustunni í ár. Það er líka ávísun á fjárfestingu og innspýtingu í hagkerfið.

Bygging hjúkrunarheimila er fjárfestingarpakki upp á 5 milljarða. Ofanflóðasjóður ætlar að framkvæma fyrir hátt á annan milljarð núna á tveimur árum. Þannig gæti ég lengi talið.

Ég er mun bjartsýnni en jafnvel áætlanir og spár gefa tilefni til, svo ég tali nú ekki um stjórnarandstöðuna. Það er alveg á hreinu að bölmóður og svartagallsraus stjórnarandstöðunnar býr ekki til hagvöxt. (Forseti hringir.) Það býr ekki til hagvöxt að tala framtíðina endalaust niður.