139. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2011.

hagvöxtur og kjarasamningar.

[14:38]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Það þarf efnahagsstefnu en það þarf raunsæja efnahagsstefnu sem tekur mið af þeim grundvallarverkefnum sem við er að eiga. Sama hvað geipað er hér um, að ríkisstjórnin hafi á valdi sínu að breyta þeim grundvallarþáttum, verða menn að horfast í augu við það að sá vandi sem við vinnum okkur út úr núna væri sá sami fyrir aðrar ríkisstjórnir. Við erum með fólk sem vantar vinnu. Við höfum fyrirtæki sem geta ekki tekist á hendur nýjar skuldbindingar vegna þess að þau eru skuldug upp fyrir rjáfur eftir gengishrun krónunnar. Við höfum peninga í bönkum sem finna sér ekki farveg vegna þess að hvorki heimilin né fyrirtæki geta tekið lán vegna gengishrunsins. Það þarf að tengja þessa þætti saman. Það er verkefni sem allir mundu þurfa að leysa úr, sama hverju nafni þeir nefnast, sem tækju að sér hlutverk í ríkisstjórn.

Við erum að vinna úr því verkefni núna og við erum að horfa á þau forgangsatriði sem eru augljós, þ.e. að greiða úr skuldaúrvinnslu heimila og fyrirtækja. Fyrirtækin verða mjög fljótt að fá fast land undir fætur í skuldaúrvinnslunni. Við erum að beita öllum þeim tækjum sem tiltæk eru til að þrýsta á að það verði gert hratt og við gerum það í samvinnu við jafnt Fjármálaeftirlit og Samkeppniseftirlit til að úr þeim málum verði unnið eins hratt og mögulegt er. Þau skilaboð eru afar skýrt fram sett.

Við höfum líka verið að kanna möguleika á að ná lægri fjármagnskostnaði. Það er alveg rétt sem komið hefur fram í umræðunni, hann er enn þá of hár til að það sé raunsætt að fyrirtæki nýti sér tækifærin til fulls.

Virðulegi forseti. Það eru þrír grundvallarþættir í efnahagsstefnunni fram undan. Í fyrsta lagi agi í ríkisfjármálum. Við verðum að halda afgangi á ríkisrekstri til næstu ára. Það er algert grundvallaratriði og það má ekki slaka á í því markmiði. Í annan stað þurfum við stöðugleika í gengi sem er forsenda kaupmáttar næstu árin vegna þess að við byggjum ekki kaupmáttaraukningu á bólu eða á auknum viðskiptahalla. Við þurfum að byggja hann á því að við vinnum okkur raunverulega inn fyrir þeim kjarabótum sem við ætlum að innleysa í framtíðinni.

Nauðsynleg forsenda þess að skuldir ríkisins geti haldið áfram að greiðast niður er að við höfum afgang á viðskiptum við önnur lönd. Það mun aftur leiða til lægri fjármagnskostnaðar ríkisins og minni þarfa ríkisins til að endurfjármagna skuldir og lægri fjármagnskostnaðar fyrir fyrirtækin. Það er forsenda sjálfbærs hagvaxtar.

Að síðustu þurfum við að skýra fljótt valkosti okkar í peningamálum því að land sem er fast án fyrirheits í viðjum hafta er ekki fýsilegur fjárfestingarkostur, hvorki fyrir innlenda fjárfesta né erlenda. Þar þurfa auðvitað allir flokkar að hætta að skila auðu og koma fram með skýra sýn á það hvernig við hvetjum til fjárfestingar (Forseti hringir.) með skýrri stefnu í peningamálum til næstu ára.