139. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2011.

hagvöxtur og kjarasamningar.

[15:01]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Þegar rætt er um atvinnumál og hagvöxt er eins og mörgum finnist upphaf og endir alls vera það hvort álver rísi í Helguvík eða á Bakka. Slík umræða skilar okkur ekki neinu og við eigum að byggja nýja orkustefnu á sem fjölbreyttustum grunni sem byggir á sjálfbærri nýtingu auðlinda okkar og takmarka nýtingu jarðhitakerfa til orkuframleiðslu til stóriðjuvera. Við þurfum að læra af reynslunni og byggja á mörgum stoðum. Grunnatvinnuvegir okkar skipta miklu máli þegar horft er til aukins hagvaxtar, og fæðuöryggi þjóða er aldrei mikilvægara en nú þegar mikill efnahagsóróleiki ríkir í heiminum.

Margir óvissuþættir eru í íslensku efnahagslífi og hafa áhrif á hvernig hagvöxtur þróast. Það tekur langan tíma að fá endanlegar tölur um landsframleiðslu og þar með hagvöxt. Spár um hagvöxt geta því verið mjög misvísandi og dregist getur að fá endanlega niðurstöðu. Það er því gífurlega mikilvægt að vel takist til með fjárhagslega endurskipulagningu lítilla og meðalstórra fyrirtækja og að lífvænleg fyrirtæki komist í skjól og fái tækifæri til uppbyggingar og fjölgunar starfa.

Það skiptir einnig miklu máli að gerð kjarasamninga takist vel á þessum erfiðu tímum og að allir sem að þeim komi sýni ábyrgð og mæti af réttsýni sanngjörnum kröfum um kjarabætur sem þurfa einnig að endurspegla það svigrúm sem þó er til staðar til raunkaupmáttaraukningar. Það verður að skapa atvinnulífinu sem best rekstrarumhverfi og þar er efnahagslegur stöðugleiki og lægri vextir lykilatriði. (JónG: Meiri skattar …)

Atvinnuleysi er eitt það erfiðasta viðfangsefni sem stjórnvöld glíma við og er ekki ásættanlegt. Við það verður ekki unað. Við höldum áfram að berjast við það, en bjartsýni og kraftur ríkir víða í atvinnulífinu og eykur væntingu um aukinn hagvöxt. Það er þó mikilvægt að á bak við hann sé raunveruleg verðmætasköpun sem skilur eitthvað eftir sig annað en innstæðulausan froðuhagvöxt sem hafði byggst hér upp fyrir hrun. Við horfum nú til greina eins og hugbúnaðargeirans og til skapandi greina í menningu, tónlist og hönnun. Ferðaþjónustan er á blússandi siglingu og nýsköpun í hefðbundnum greinum eins og sjávarútvegi og landbúnaði.

Það eru víða verkefni fram undan eins og hér hefur verið nefnt, bygging nýs landspítala, Búðarhálsvirkjun o.fl. Einnig er verið að endurskoða fiskveiðistjórnarkerfið og það mun skila okkur innspýtingu í hagkerfið og fjölga störfum.

Ég tel að atvinnulífið hafi fulla burði til að vaxa og dafna og skila af sér hagvexti. En við þurfum líka að horfa til starfandi fyrirtækja á landsbyggðinni sem byggja á mannauði og náttúruauðlindum. Þau þurfa að hafa rekstrarhæf samkeppnisskilyrði og rekstrarumhverfi til samanburðar við aðra landsmenn.

Það er eitt mál sem við þurfum að leysa og það er Icesave-deilan. Við þurfum að klára það mál og um það eru aðilar vinnumarkaðarins sammála. (Forseti hringir.) Frágangur þessa ólánsmáls er ávísun á hagvöxt.