139. löggjafarþing — 99. fundur,  24. mars 2011.

hagvöxtur og kjarasamningar.

[15:04]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Yfirskrift þessarar umræðu er kjarasamningarnir og hagvöxtur. Það er eins og að það hafi farið algerlega fram hjá mörgum þátttakendum í umræðunni að kjarasamningar eru opnir. Tilefni umræðunnar er einmitt að svo virðist sem væntingar hæstv. forsætisráðherra og fjármálaráðherra um það hvernig hagvöxtur sé ásættanlegur á næstu árum stangist svo harkalega á við þær hugmyndir aðila vinnumarkaðarins að hér sé komin fram skýringin á því hvers vegna ríkisstjórnin talar alltaf um svartsýni stjórnarandstöðunnar þegar við bendum á augljósar staðreyndir. Hér hef ég ekki vitnað í hagvaxtarspá Sjálfstæðisflokksins. Nei, ég vitnaði í hagvaxtarspá ASÍ frá því í morgun. Það er líka hægt að vitna í hagvaxtarspá Seðlabankans og annarra aðila sem vinna að gerð slíkra gagna um það að hagvöxtur á þessu ári, á því næsta og árinu þar á eftir verði þannig að launamenn í landinu geta ekki haft uppi væntingar um batnandi kjör. Það eru skilaboðin.

Þegar við vekjum athygli á þessari staðreynd kemur hæstv. fjármálaráðherra og segir: Hér er allt svo bjart og fínt, þetta er allt í góðu lagi.

Það er sem sagt talað til launamanna þannig að þeir eigi að sætta sig þessa staðreynd en ekki vera með væntingar um að þrátt fyrir 25% samdrátt í kaupmætti á undanförnum tveimur árum hafi þeir uppi réttmæta kröfu um að hefja endurheimt kaupmáttarins.

Ég er þeirrar skoðunar að hugmyndir aðila vinnumarkaðarins um að skapa hér 4–5% hagvöxt á næstu árum á hverju ári séu raunhæfar, en til þess þarf auðvitað að grípa til aðgerða. Tækist okkur að skapa þannig hagvöxt væri hægt að hækka laun í samræmi við væntingar aðila verkalýðshreyfingarinnar og gera það með raunhæfum hætti. Ætli menn hins vegar að halda áfram á þessari vegferð með um og í kringum 2% hagvöxt verður ekki hægt að hækka launin og þá á ríkisstjórnin bara að segja beint út að hún stefni ekki að því að bæta kjörin í landinu, að þrátt fyrir 25% samdrátt í kaupmætti sé ekki á dagskránni hjá ríkisstjórninni að bæta kjörin.

Stjórnarandstaðan talar fyrir öfugu sjónarmiði. Hún talar fyrir því að við leggjum af stað við að mynda hér umhverfi sem laðar fram fjárfestingu og við erum með miklu háleitari markmið en ríkisstjórnin sjálf. Það er kannski niðurstaða þessarar umræðu hér að við tölum í takt við aðila vinnumarkaðarins, þá sem vinna að gerð kjarasamninga.

Mér sýnist vandinn hér vera sá að fjármálaráðherrann skilur ekki að jafnvel þótt hann sé sáttur við þær spár sem við höfum nú í höndunum eru launamenn í landinu það ekki. Þetta er bein ógn við þeirra kjör, framtíð þeirra og væntingar um að við séum að rísa hér upp úr öldudalnum. Reyndar sýna síðustu tölur það að jafnvel þar sem kreppan hefur verið dýpri (Forseti hringir.) en á Íslandi, eins og t.d. í Portúgal og á Írlandi, réttu menn mun fyrr (Forseti hringir.) úr kútnum og risu aftur til vaxtar.